Á tvær ungar dætur en ekki misst úr námi

Glódís ásamt Sigfúsi manni sínum og dætrum þeirra tveimur, fjögurra …
Glódís ásamt Sigfúsi manni sínum og dætrum þeirra tveimur, fjögurra og tveggja ára. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Akureyringurinn Glódís Ingólfsdóttir á hina fjögurra ára gömlu Sóllilju og hina tveggja ára gömlu Maísól með unnusta sínum Sigfúsi Elvari. Glódís bloggar á Maedur.com og stundar nám á lokaári í meistaranámi í lögfræði við Háskóla Akureyrar. Glódís er 24 ára og hefur ekki misst úr námi þrátt fyrir fyrir að hafa eignast tvö börn á rúmlega fjórum árum. 

Með dugnaði hefur Glódís náð að halda sínu striki í náminu en hefur auk þess fengið góða hjálp frá fjölskyldu sinni. 

„Ég byrjaði í lögfræði þegar eldri dóttir mín, Sóllilja, var fjögurra mánaða gömul. Ég var þá í skólanum frá átta til tólf og tengdamamma mín passaði á meðan, svo lærði ég á kvöldin og um helgar. Ég var með Sóllilju á brjósti og mjólkaði svo hún gæti fengið pela á meðan ég var í skólanum og þetta fyrirkomulag gekk bara mjög vel.

Þegar ég byrjaði á öðru ári var Sóllilja byrjuð hjá dagmömmu en þá var ég orðin ólétt að yngri dóttur minni, Maísól. Ég var mjög veik fyrstu mánuðina, ældi mikið og átti erfitt með að mæta í skólann. Ég harkaði samt í gegnum þetta tímabil og einhvern veginn reddaðist það.

Þegar ég byrjaði á þriðja ári var Maísól þriggja mánaða og ég ákvað þá að skrá mig í fjarnám á meðan ég var í fæðingarorlofi. Ég lærði á meðan hún svaf og Sóllilja var á leikskólanum, og svo þegar Maísól var orðin aðeins eldri hjálpuðu afi og amma Sigfúsar mér mikið og tóku hana oft í pössun svo að ég gæti lært. Þegar ég byrjaði á fjórða ári var Maísól byrjuð hjá dagmömmu og Sóllilja var á leikskóla svo að ég hafði nægan tíma til að sinna náminu og núna eru þær báðar komnar á leikskóla og ég er að byrja síðasta árið mitt.

Sóllilja með systur sína Maísól í fanginu.
Sóllilja með systur sína Maísól í fanginu. Ljósmynd/Aðsend

Ég hef aldrei þurft að taka hlé frá náminu en ég hef hinsvegar þurft að sleppa því að mæta í nokkra áfanga vegna aðstæðna og þá þurft að taka 100% lokapróf í staðinn. Ég eyddi til dæmis öllu jólafríinu 2017 í að læra fyrir próf svo að ég gæti útskrifast úr BA-náminu á réttum tíma,“ segir Glódís um hvernig það er að vera í fullu námi og eiga lítil börn. 

Hvernig breytti móður­hlut­verkið þér?

„Ég var bara 19 ára þegar við eignuðumst Sóllilju og ég held að mesta breytingin hafi verið hvað ég og við bæði þroskuðumst mikið við að þurfa að bera þessa miklu ábyrgð svona ung.“

Hvað hefðir þú vilja vita áður en þú varst móðir?

„Ég hefði til dæmis viljað vita að brjóstagjöf getur verið mjög erfið bæði andlega og líkamlega og það er mikilvægt að fara út í hana með réttu hugarfari. Ég átti mjög erfitt með brjóstagjöfina í bæði skiptin og held að það hefði getað gengið betur ef ég hefði fengið meiri fræðslu.“

Kom eitthvað á óvart við móðurhlutverkið?

„Móðurhlutverkið kemur mér sífellt á óvart, enda á ég tvö mjög uppátækjasöm börn. Það sem kemur mér kannski mest á óvart er hversu mikið er hægt að elska þessa litlu  krakkagrísi sem við eigum. Þó að það sé búið að sleikja kremið af kökunni sem maður eyddi mörgum klukkutímum í að skreyta fyrir veislu, þó að það sé búið að smyrja uppáhaldsfarðanum manns á gólfið, þó að það sé búið að tússa á veggina og brjóta Múmínbollann sem er hætt að framleiða. Það er alveg sama hverju þau taka upp á maður er alltaf eða oftast fljótur að fyrirgefa þeim því maður elskar þau svo óendanlega mikið.“

Systurnar eru miklir grallarar.
Systurnar eru miklir grallarar. Ljósmynd/Aðsend

Finn­ur þú fyr­ir pressu frá sam­fé­lags­miðlum að gera hlut­ina á ákveðinn hátt?

„Nei,, ég get ekki sagt að ég finni fyrir pressu, en ég finn fyrir hvatningu og mér finnst mjög hvetjandi bæði að fylgjast með öðrum og að leyfa öðrum að fylgjast með mér. Ég reyni að forðast það að fylgja fólki á samfélagsmiðlum sem ég tel hafa neikvæð áhrif á mína líðan en er dugleg að fylgjast með fólki sem mér finnst hvetjandi á einhvern hátt.“

Hefur þú þurft að skipuleggja þig og forgangsraða öðruvísi eftir að þú varðst móðir?

„Já, algjörlega, ég hef alltaf verið skipulögð og með forgangsröðun á hreinu varðandi nám og annað, en með móðurhlutverkinu varð ég enn skipulagðari og forgangsröðunin breyttist. Ég tek til dæmis mjög lítinn þátt í félagslífinu sem fylgir skólanum en ég vel það sjálf að eyða frekar tíma með fjölskyldunni minni heldur en að stunda félagslíf og ég hef aldrei séð eftir því.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gengu fæðingar þínar og meðgöngur?

„Báðar meðgöngurnar voru erfiðar, ég var mjög veik meira og minna allan tímann, ældi mikið og fékk slæma grindargliðnun. En fæðingarnar voru gjörólíkar.

Ég fékk meðgöngueitrun þegar ég gekk með Sóllilju og var sett af stað á viku 32. Sóllilja fæddist því tveim mánuðum fyrir tímann og var aðeins 8 merkur. Ég gleymi því ekki hvað ég var hrædd þegar ég var send alein í sjúkraflug til Reykjavíkur bara 19 ára gömul og vissi ekkert hvað var að gerast. Þegar ég var svo sett af stað á Landspítalanum var Sigfús kominn til mín en við vorum bara tvö ein, langt í burtu frá fjölskyldum okkar og vissum ekkert hvað við vorum að fara út í. Fæðingin var mjög erfið, ég var rosalega veik af meðgöngueitruninni og var með svo mikinn hausverk út frá háþrýstingi að ég ældi af sársauka. Þegar Sóllilja fæddist var farið með hana beint á vökudeildina á meðan ég þurfti að liggja í sólarhringsvöktun með lífshættulega háan blóðþrýsting. Sóllilja var á vöku fyrstu vikurnar og svo vorum við á barnadeildinni á Akureyri eina viku í lokinn áður en við fengum að fara alveg heim. Þetta var erfiður tími og ég var langt niðri andlega, enda hafði þetta alls ekki farið eins og við höfðum ímyndað okkur og ég var mjög hrædd um litla barnið okkar. Sem betur fer var Sóllilja hraust og heilbrigð og dafnaði vel.

Ég gekk með Maísól nákvæmlega í 40 vikur og slapp alveg við meðgöngueitrun þá sem betur fer. Ég missti vatnið um kl. 23 kvöldið fyrir settan dag og þar sem hún var óskorðuð þurfti ég að leggjast á gólfið og hringja á sjúkrabíl. Þegar við komum á spítalann gerðist allt mjög hratt og um kl. eitt um nóttina var hún komin í heiminn. Þetta var alveg náttúruleg fæðing án gangsetningar, mænudeyfingar eða annarra inngripa og ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa það. Mér leið svo miklu miklu betur í þessari fæðingu að það er varla hægt að bera það saman við fyrri fæðinguna. Maísól var 16 merkur, eða nákvæmlega helmingi stærri en systir hennar, og stálhraust.

Það kom mér virkilega á óvart hvað fæðingar geta verið rosalega ólíkar.“

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Verið ófeimnar við að biðja um hjálp hvort sem er frá fjölskyldu og vinum við aðstoð varðandi heimilið og barnið, eða frá fagfólki eins og læknum og ljósmæðrum við aðstoð varðandi til dæmis brjóstagjöf og annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert