Þakklát fyrir að sjá „ekki“ snöpp sonanna

Elle Macpherson ásamt sonum sínum tveimur.
Elle Macpherson ásamt sonum sínum tveimur. skjáskot

Fyrirsætan og viðskiptakonan Elle MacPherson segist þakka Guði fyrir að sjá ekki „snöppin“ sem synir hennar senda. Í viðtali við Newstalk ræðir hún um hvernig sé að ala upp tvo unga stráka í heimi fullum af samfélagsmiðlum. 

„Ég trúi ekki á að taka fram fyrir hendurnar á börnum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að leiðbeina þeim en þau verða að geta gert mistök. Því þannig læra þau. Og vonandi eru mistökin sem þau gera ekki of skaðleg þeim,“ sagði MacPerson. 

MacPherson á synina Flynn 21 árs og Cy 16 ára. Þau þrjú voru saman á forsíðu Vogue í Ástralíu fyrr á árinu. Hún segir syni sína hafa verið með lokað Instagram til að byrja með. 

„Ég mælti með því fyrir þá, því ég held að þangað til þeir eru búnir að læra hverjir þeir eru og hvað á að fara á samfélagsmiðla og hvað ekki er betra að læra það óopinerlega. Í dag eru þeir með opna reikninga á Instagram,“ segir MacPherson. 

Hún segir þá birta það sem þeir vilji og að hún fetti ekki fingur út í það. „Þeir verða að fá að vera þeir sjálfir,“ sagði hún.

MacPherson bendir á að það er það sem gerist fyrir utan Instagram sem við eigum oft erfitt með að hjálpa börnunum okkar með. 

„Krakkar nota Snapchat. Og það er komið og farið á tveimur sekúndum. Ég þakka Guði fyrir að ég sé ekki „snöppin““ hjá börnunum mínum. Ég veit ekkert hvað fer fram þar,“ sagði MacPherson.

„Strákarnir eru merkilega meðvitaðir um hin ýmsu málefni, til dæmis læknisfræðilegt frelsi, hamfarahlýnun, Cy er heltekinn af símanotkun undir stýri. Það virðist vera eitthvað sem hann hefur virkilegar áhyggjur af. Unga fólkið hefur allt aðrar áhyggjur heldur en við þegar við vorum að alast upp,“ sagði MacPherson og segist sjálf ekki hafa verið jafn meðvituð þegar hún var á þeirra aldri.

mbl.is