Ánægð að hafa átt börnin svona ung

Reese Witherspoon á þrjú börn.
Reese Witherspoon á þrjú börn. AFP

Leikkonan Reese Witherspoon segir í nýju myndbandi á YouTube-rás sinni að hún sé ánægð að hún eignaðist börnin sín frekar snemma á lífsleiðinni. 

Witherspoon á þrjú börn, þau Övu 20 ára og Deacon 17 ára sem hún átti með fyrri eiginmanni sínum Ryan Phillippe og Tennessee 7 ára sem hún á með eiginmanni sínum Jim Toth.

„Mér fannst það mikið líkamlegt átak að eiga lítil börn og það er bara erfitt fyrir líkamann. Ég er svo ánægð með að hafa átt börnin frekar ung. Ég átti eitt þegar ég var 23 ára, eitt 27 ára og svo aftur 37 ára. Og Guð minn góður, að eignast barn 37 ára var miklu erfiðara. Þetta er bara mín reynsla. Reynsla fólks er misjöfn og þú verður að gera það sem er rétt fyrir þig,“ sagði leikkonan. 

Ferill leikkonunnar var aðeins rétt að byrja þegar hún vissi að hún væri ólétt aðeins 22 ára gömul. Hún komst fljótt að því að barneignir breyta lífinu. „Allt líf þitt mun breytast. Allt sem þú trúir á, allt sem þú borðar, allt sjálfstæði sem þú hefur. Þú getur ekki farið út úr húsi án þess að hugsa um aðra manneskju. Þú getur ekki horf á innkaupakerruna án þess að hugsa um aðra manneskju. Þú hugsar ekki um hvort þér er heitt eða kalt, þú hugsar um hvort þeim sé heitt eða kalt. Þú sefur ekki lengur,“ sagði Witherspoon. mbl.is