Giftu sig en biðu með að flytja vegna barnanna

Gwyneth Paltrow og eiginmaður hennar Brad Falchuk.
Gwyneth Paltrow og eiginmaður hennar Brad Falchuk. AFP

Gwyneth Paltrow gifti sig fyrir ári en flutti ekki inn með eiginmanni sínum, Brad Falchuk, fyrr en fyrir um mánuði. Paltrow greindi frá ástæðunni í þætti Jimmy Kimmel í vikunni. 

Þáttarstjórnandinn Kimmel spurði hvort venjan væri ekki að flytja inn saman fyrst og gifta sig svo. Paltrow svaraði því að þau hefðu haft hag barnanna að leiðarljósi þegar kom að því að sameina heimilishaldið. 

Sagði Paltrow að þau hjónin hefðu reynt að fara varlega. Þau vildu gefa unglingunum sínum rými og fara rólega í sakirnar. 

Paltrow á hina 15 ára gömlu Apple og hinn 13 ára gamla Moses með fyrrverandi eiginmanni sínum Chris Martin. Martin og Paltrow hafa talað mjög opinskátt um hvernig þau reyndu að skilja þannig að það kæmi ekki niður á börnunum þeirra. Það er því ekki skrítið að hún fari einnig mjög varlega í að flytja inn með nýjum manni.  

mbl.is