Íslenskt fatamerki valið besta merkið

Gréta Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri og ein stofnenda As We Grow var …
Gréta Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri og ein stofnenda As We Grow var ánægð með verðlaunin. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslenska fatahönnunarmerkið As We Grow var valið besta umhverfisvæna fatamerkið af hinum virta breska miðli Junior Magazine. Verðlaunin eru veitt árlega og var As We Grow valið úr hópi fjölda annarra sambærilegra vörumerkja

Íslenska vörumerkið As We Grow var stofnað árið 2012 og hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt síðan. Vörurnar njóta mikilla vinsælda erlendis. Nýlega opnaði verslun og hönnunarstúdíó við Garðastræti í Reykjavík þar sem ætlunin er að sinna íslenskum markaði betur.

„Okkur þykir einstaklega vænt um og hvetjandi að fá Eco-verðlaunin núna, þar sem gríðarleg vinna liggur að baki línunni okkar í ár. Dómnefndin heillaðist af sígildri hönnun og því að við notum náttúruleg efni, einföld snið og pössum upp á smáatriðin sem prýða fötin okkar,“ segir Gréta Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda As We Grow. 

As We Grow sækir innblástur sinn í gamla ullarpeysu sem var prjónuð af íslenskri móður á sjöunda áratugnum. Sú peysa gekk á milli kynslóða og var notagildið alltaf jafn mikið. Ferðalag þessarar peysu er leiðarljós As We Grow, það er að búa til föt sem endast og geta nýst mörgum börnum með því að nota hágæða efni sem endast en brotna niður í náttúrunni. 

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:

„As We Grow er eitt af okkar uppáhalds barnafatamerkjum - náttúruleg efni og gæði setur þau á annan stall og sú staðreynd að fötin eru framleidd með mannúðleg sjónarmið að leiðarljósi gerir As We Grow að merki sem aðrir ættu að taka sér til fyrirmyndar.“

„Eitt af okkar uppáhalds barnafatamerkjum - náttúrulegu efnin og gæðafatnaðurinn setur As We Grow í sérflokk þó talað sé ekki um siðferðislega staðla sem gerir merkið að algjörri fyrirmynd fyrir aðra til að horfa til.“

„As We Grow er eitt af fyrstu vörumerkjunum sem virkilega veitti tímalausum fatnaði athygli og því að föt ættu að geta verið endurnýtt og notuð frá kynslóð til kynslóðar. Við elskum þetta!“

„Með langri endingu og efnum sem eru gerð til að nýtast mögum kynslóðum, fer As We Grow fyrir umhverfisvænum fatnaði í heimi tískunnar.“

mbl.is