Oprah sér ekki eftir barnleysinu

Oprah Winfrey og Stedman Graham eiga ekki börn.
Oprah Winfrey og Stedman Graham eiga ekki börn. AFP

Spjallþáttastjórnandinn fyrrverandi Oprah Winfrey segist ekki sjá eftir því að hafa ekki gengið í hjónaband og eignast börn. Winfrey hitti manninn sinn, Stedman Graham, árið 1986 og segir í viðtali við People að ef þau hefðu gift sig hefði líf hennar mögulega litið öðruvísi út. 

Winfrey var ekki alltaf ákveðin í því að eignast ekki börn. Hún segist eitt sinn hafa hugsað um að eignast barn eftir að hún og Graham trúlofuðu sig. 

„Nú ef við giftum okkur þarf ég auka herbergi fyrir börn,“ segist Winfrey hafa hugsað mér sér á einum tímapunkti í lífi sínu og tók til þess ráðs að kaupa nýja íbúð. 

Winfrey segist hafa séð á árum sínum sem spjallþáttastjórnandi hversu mikil ábyrgð og fórn það væri að vera móðir. Segist hún hafa talað við fullt af fólki sem fór illa fyrir vegna þess að foreldrar þeirra tóku foreldrahlutverkinu ekki nógu alvarlega. Segist hún bera mikla virðingu fyrir konum sem velja að vera heima með börnunum sínum þar sem hún gæti ekki lifað slíku lífi. 

Winfrey segir að þau Graham sjái í dag að þau væru ekki enn saman ef þau hefðu gift sig. Segir hún að þau hefðu bæði haft aðrar væntingar til hvors annars ef þau hefðu gengið í hjónaband.

Winfrey segir að ein ástæða þess að hún sér ekki eftir því að hafa valið að verða ekki móðir er vegna þess að hún fær móðurlegri þörf sinni fullnægt á annan hátt. Hún er til dæmis með leiðtogaskóla fyrir stúlkur í Suður-Afríku og segir hún að stúlkurnar þar fullnægi móðurlegum þörfum sínum. 

Oprah Winfrey og Stedman Graham.
Oprah Winfrey og Stedman Graham. AFP
mbl.is