Barnið var grænt í þrjá daga

Dóttirin varð græn af baðbombunni.
Dóttirin varð græn af baðbombunni. Skjáskot/News.au

Móður í Ástralíu var heldur betur brugðið þegar hún athugaði með dóttur sína í baði og sá að dóttirin og allt baðkarið voru orðin græn.

Hin óheppna móðir, Keri Sackville, sagði frá atvikinu í viðtali við ástralska miðilinn News.au að þær mæðgur hefðu keypt sett til að búa til baðbombu. Dóttirin hafi svo verið einar 20 mínútur að blanda saman bombunni og grínaðist Sackville með að það hafi tekið hana 40 mínútur að þrífa upp eftir blöndunina. 

Síðan fór dóttirin hæstánægð með eigin baðbombu í bað. Þegar Sackville kíkti svo á hana hafði baðbomban litað gjörsamlega allt saman. „Dóttir mín stóð í baðinu með hendur upp fyrir höfuð og skellihló. Og hún var GRÆN og sagði „Sjáðu mamma! Ég er geimvera“,“ skrifar Sackville. 

Sackville dreif dótturina úr baðinu og yfir í sturtuna og reyndi að skrúbba hana en liturinn haggaðist ekki. Betur gekk að þrífa baðkarið en eftir mikið púl varð það aftur hvítt. Það hins vegar endaði þannig að stelpan litla var græn í þrjá daga og með græna slikju á húðinni í margar vikur eftir það. 

„Þetta var engin vatnsleysanleg baðbomba heldur virtist hún hafa verið gerð úr varanlegum litum eða olíumálningu,“ skrifar Sackville. 

„Sjáðu mamma! Ég er geimvera.“
„Sjáðu mamma! Ég er geimvera.“ Skjáskot/News.au
Stelpan var græn í þrjá daga.
Stelpan var græn í þrjá daga. Skjáskot/News.au
mbl.is