Varð þakklát fyrir að eiga og geta átt barn

Sylvía Haukdal á tvær dætur. Hér er hún með eldri …
Sylvía Haukdal á tvær dætur. Hér er hún með eldri dóttur sinni Önnu Hrafnhildi. Ljósmynd/Aðsend

Kökusnillingurinn Sylvía Haukdal sem heldur úti síðunni Sylviahakdal.is á tvær dætur með eiginmanni sínum Atla Björgvinssyni. Sylvía segir að lífið hafi eiginlega byrjað þegar eldri dóttir þeirra kom í heiminn. Það tók langan tíma að eignast eldri dótturina en sú yngri kom gleðilega á óvart. Þrátt fyrir þessa miklu hamingju átti Sylvía erfitt með að finna til gleði á fyrri hluta meðgöngunnar en fékk sem betur fer góða hjálp. Nú eru dæturnar fjögurra ára og eins árs og á fjölskyldan sínar bestur stundir í eldhúsinu. 

„Ég vil vera fyrirmynd fyrir börnin mín, vera sú sem þær treysta og leita til ef eitthvað er. Ég á svo ótrúlega gott samband við mína foreldra og þau hafa verið mínar fyrirmyndir þegar kemur að foreldrahlutverkinu. Ég væri í skýjunum ef ég gæti átt eins samband við börnin mín,“ segir Sylvía um hvernig móðir hún vill vera. 

Hvað legg­ur þú áherslu á í upp­eld­inu?

„Þessi spurning er erfið, ég eiginlega veit það ekki. Ég legg mikið upp úr því að dætur mínar alist upp í heilbrigðu og hamingjusömu umhverfi og kenni þeim að ekkert sé ómögulegt.“

Hvernig breytt­ist lífið eft­ir að þú varðst mamma?

„Ég veit það er klisjulegt en mér finnst lífið eiginlega hafa byrjað eftir að ég eignaðist dætur mínar. Við vorum mjög lengi að verða ólétt af eldri stelpunni okkar henni Önnu Hrafnhildi og þegar það svo loks gerðist varð maður svo þakklátur fyrir lífið sem maður eignaðist við að eiga barn og geta átt barn. Vissulega sefur maður minna, drekkur meira kaffi og hefur minni tíma fyrir sjálfan sig en það er svo þess virði.“

Atli eiginmaður Sylvíu ásamt yngri dóttur þeirra Marín Helgu.
Atli eiginmaður Sylvíu ásamt yngri dóttur þeirra Marín Helgu.

Hvað kom þér á óvart varðandi móður­hlut­verkið?

„Það kom mér á óvart hversu mikið þetta tekur á tilfinningarnar hvað þetta getur verið erfitt og dásamlegt á sama tíma. Ég gerði mér enga grein fyrir því hversu mikið ég ætti eftir að elska börnin mín.“

Hvernig gengu meðgöngurnar?

„Þær gengu misjafnlega. Fyrsta meðgangan gekk betur en seinni, ældi aðeins en fékk mjög mikla grindargliðnun þannig ég þurfti að hætta snemma að vinna.

Önnur meðgangan gekk eiginlega bara mjög illa, byrjaði strax að æla mikið og ældi nánast alla meðgönguna. Ég fékk mikið meðgönguþunglyndi sem ég fékk sem betur fer hjálp við á 20. viku þegar ég loks þorði að segja eitthvað en þá var ég búin að skammast mín fyrir líðan mína frá fyrstu vikum meðgöngunnar. Ég man eftir að hafa heyrt fullt af hlutum um fæðingarþunglyndi en aldrei neitt um meðgönguþunglyndi. Allt í einu var ég að upplifa tilfinningar sem ég skammaðist mín fyrir því mér fannst ég eiga að vera hamingjusamasta manneskja í heimi þar sem ég var svo heppin að verða óvænt ólétt þegar ég átti ekki að geta það sjálf. Í staðinn leið mér bara verr og verr og allt í einu varð eins og engin hamingja væri í lífi mínu og ekkert gladdi mig. Ég er heppin að maðurinn minn spottaði að ekki var allt með felldu og loks brotnaði ég niður og sagði frá hvernig mér var búið að líða. Eftir að ég fékk hjálp frá yndislegu ljósmóðurinni minni snerist allt við og mér byrjaði að líða vel. 

En grindargliðnunin byrjaði fyrr en á fyrri meðgöngu og varð ég að hætta að vinna mjög snemma á meðgöngunni. Ég var heppin að dóttir mín ákvað að koma í heiminn þegar ég var komin rúmlega 38 vikur.“

Anna Hrafnhildur er liðtæk í eldhúsinu.
Anna Hrafnhildur er liðtæk í eldhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig voru fyrstu mánuðirn­ir með ung­barn?

„Fyrstu mánuðirnir voru dásamlegir og erfiðir. Brjóstagjöfin gekk brösuglega í bæði skiptin. Með fyrsta barn er maður að læra alls konar nýja hluti og gera allt í fyrsta skipti, er óöruggur og hræddur en með annað barn er maður öruggari og ekki eins hræddur við allt nýtt.“

Er flóknara að eiga tvö börn en eitt?

„Ég myndi ekki segja að það væri beint flóknara þótt það sé auðvitað meiri áskorun og taki meira á. Ég man svo vel að það var alltaf verið að segja að eitt væri ekkert mál en tvö eins og tíu en ég er alls ekki sammála en auðvitað erfiðara þar sem þú þarft að skipta þeim tíma sem þú hafðir fyrir eitt barn á tvö börn.“

Marín Helga sér um að smakka fyrir móður sína.
Marín Helga sér um að smakka fyrir móður sína. Ljósmynd/Aðsend

Fá dæturnar að hjálpa til í eldhúsinu?

„Þær fá mikið að hjálpa til í eldhúsinu, bæði baka þær mikið með mér og elda með pabba sínum. Þetta er svona ein af dýrmætustu stundunum á okkar heimili þegar allir eru saman í eldhúsinu að hjálpast að. Við erum bæði þannig að við elskum að eyða tíma í eldhúsinu, maðurinn minn gerir dásamlegan mat meðan ég er meira í bakstrinum. Um helgar eru oft miklar gæðastundir þar sem við mæðgur skellum í einhvern bakstur saman.“

Dæturnar fá að taka þátt í bakstrinum.
Dæturnar fá að taka þátt í bakstrinum. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig eru þínar fæðingarsögur?

„Báðar mínar fæðingar gengu mjög vel.

Með eldri gekk ég fjóra daga fram yfir og var farin að reyna öll trikkin í bókinni til þess að koma mér af stað. Svo fór ég loks af stað um miðja nótt, fór fljótlega upp á fæðingardeild þar sem hríðarnar urðu strax mjög harðar. Uppi á fæðingardeild vorum við bara í rólegheitum vorum með dásamlega ljósmóðir sem heitir Rut sem var með okkur allan tímann. Mamma var viðstödd fæðinguna ásamt auðvitað Atla manninum mínum. Ég fékk fljótlega mænudeyfingu og það hægði töluvert á ferlinu og var lengi að koma Önnu út eða um tvær klukkustundir. Þetta voru samt ekki nema 12 klukkustundir í allt frá fyrsta verki.

Með Marín Helgu var ég komin 38 vikur og nóttina 22. febrúar byrjaði allt strax af fullum krafti frá fyrsta verki, það var strax mjög stutt á milli, ég var ekki búin að fá nema þrjá eða fjóra verki þegar ég ákvað að hringja niður á fæðingardeild og láta vita af mér. Á meðan ég var að tala við ljósmóðurina í símann fékk ég annan verk og bað hún mig þá að koma mjög fljótlega niður á deild sem við gerðum. Þegar við komum tók á móti okkur yndisleg ljósmóðir sem heitir Bjarney. Hún sagði mér að ég væri komin með átta í útvíkkun svo það væri ekkert mjög langt í dömuna. Ég man hvað ég hugaði: „Fjandinn, það er of seint fyrir mænudeyfingu.“ En þegar upp var staðið var það auðvitað mikill plús að þurfa hana ekki. Daman vær mætt rúmri klukkustund seinna í fangið á mér og gekk allt eins og í sögu. Eina sem var að mamma náði ekki til okkar en ég vildi hafa hana viðstadda eins og síðast en hún kom stuttu eftir að Marín Helga kom í heiminn með heimferðasettið.

Í bæði skiptin fórum við heim samdægurs með dásamlegu stelpurnar okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert