Kanye vill ekki að dóttir sín noti snyrtivörur

Kim Kardashian segir að það sé mikið rifist á heimilinu …
Kim Kardashian segir að það sé mikið rifist á heimilinu þessa dagana um snyrtivörur. Hér má meðal annars sjá North litlu með varalit. skjáskot/Instagram

Raunveruleikaþáttastjarnan Kim Kardashian West sagði í viðtali á E! í gær að eiginmaður hennar hefði tekið fyrir að elsta dóttir þeirra North fengi að nota snyrtivörur. 

North er 6 ára gömul og hefur stundum fengið að punta sig með mömmu sinni. Pabbi hennar er lítið hrifinn af því og vill ekki að hún noti snyrtivörur fyrr en hún verður táningur. 

„North langar að fara nota snyrtivörur, en pabbi hennar er að reyna að hindra alla snyrtivörunotkun hjá henni þangað til hún verður unglingur. Þetta er stór umræða á okkar heimili og það hefur verið mikið rifist síðustu daga en ég held það sé í lagi. Ég held að sem foreldri þá er maður bara að læra og finna út úr hlutunum á meðan tíminn líður en við föttuðum að viljum ekki að hún noti snyrtivörur svona ung, en hún sér mömmu sína setja varaliti og gloss á sig,“ sagði Kardashian West í viðtalinu. 

North litla hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum hjá mömmu sinni og hefur Kardashian West oft sýnt frá því þegar þær leika sér með snyrtivörur og tísku.

„Pabbi hennar leyfir henni það ekki. Ég held hann sé kominn með nóg af þessu, hann er búinn að breyta öllum reglunum. Ég leyfði henni til dæmis að setja smá rauðan varalit á sig um jólin eða einhvern smá lit. Ég leyfði henni að velja svartan varalit ef hún var í svörtum kjól. Kylie [systir Kardashian West] gaf henni öll þessi varasett, þannig ég lenti í vandræðum útaf því. En framvegis verða engar snyrtivörur í boði,“ sagði Kardashian West.

North West hefur oft fengið að vera með móðir sinni …
North West hefur oft fengið að vera með móðir sinni þegar hún gerir sig fína.
mbl.is