„Ég er þakklátur fyrir að fá að vera faðir“

Fjölskyldan saman, Adriana, Anna Rós og Geir Ólafsson.
Fjölskyldan saman, Adriana, Anna Rós og Geir Ólafsson. Ljósmynd/Aðsend

Í janúar árið 2016 varð tónlistarmaðurinn Geir Ólafsson faðir í fyrsta sinn en þá kom dóttir hans og Adriönu, eiginkonu Geirs, í heiminn. Geir lýsir fjölskyldu sinni sem dæmigerðri þriggja manna vísitölufjölskyldu. Litla stúlkan er augasteinn föður síns og hefur að sjálfsögðu erft tónlistarsmekk hans.

„Ég hef alltaf haft áhuga á því að eignast barn. Ég var kannski ekki alltaf að sækjast mikið eftir því en hún kom til okkar og maður lítur á hana sem guðs gjöf. Maður reynir að ala hana upp eins vel og maður getur og reynir að koma henni til vits og ára,“ segir Geir þegar hann var spurður hvort það hafi alltaf verið á dagskrá að verða faðir eða hvort löngunin hafi bara kviknað eftir fertugt.

Mikið er rætt um uppeldi stelpna, að ala þær upp sem sterkar og sjálfstæðar konur. Í því samhengi segist Geir helst leggja upp með að vera góð fyrirmynd. 

„Ég trúi því að til að bæta samfélag skipti verulega miklu máli hvernig fyrirmynd barnið hefur. Ég held að besta leiðin til þess að ala upp sterkan og heilbrigðan einstakling sé að á heimilinu ríki kærleikur, friður og virðing. Vonandi kem ég þannig fram við mömmu hennar að það verði til eftirbreytni,“ segir Geir um uppeldið. 

„Ég er lítið fyrir að röfla um hluti sem skipta engu máli. Mér finnst alltaf verið að tala um að breyta hinu og þessu en við breytum engu fyrr en við förum að huga að börnunum okkar. Ef þú vilt búa til gott samfélag þá getum við gert það með því að líta til barnanna okkar og koma þeim upp sem sterkum einstaklingum.“

Er að læra fjögur tungumál

Anna Rós er fjöltyngd en móðir hennar er frá Kólumbíu og tala mæðgurnar spænsku saman. Einnig er töluð enska og íslenska á heimilinu. Að auki segir Geir að dóttir hans kunni smá í portúgölsku. Geir segir að máltakan sé öll að koma til og segir það ekki nema jákvætt að dóttir hans læri mörg tungumál.

Hverjar eru ykkar bestu stundir?

„Á morgnana þegar ég er að gera hana klára í skólann. Þegar við erum að spjalla saman og borða morgunmat saman. Svo förum við í barnamessu á sunnudögum og við erum að stefna að því að fara í fimleika. Þannig að það er svona eitt og annað sem við erum að vinna að,“ segir Geir um feðginasambandið.

Geir segir að börnin læri það sem fyrir þeim er haft og það endurspeglast svo sannarlega þegar kemur að tónlistarsmekk dóttur hans.

„Hún mjög músíkölsk. Hún hlustar mikið á tónlist. Hún hlustar aðallega á „big bönd“. Hún er mikið fyrir Quincy Jones-bandið og Count Basie. Hún er ekki mikið að hlusta á barnalög en hún hlustar á þetta. Svo verður að segjast að það er smá Sinatra-fílingur í henni líka. Tvö af hennar uppáhaldslögum eru Leroy Brown og Mrs. Robinson.“

Lífið breyttist til hins betra

Geir segir að lífið hafi bara breyst til hins betra eftir að Anna Rós kom í heiminn.

„Auðvitað þarf maður að skipuleggja sig þegar maður er kominn með barn en ég hef aldrei litið á þetta þannig. Þetta er bara verkefni sem maður fær og maður reynir bara að gera sitt besta í því. Fjölskyldan er bara númer eitt, tvö og þrjú og maður hugsar um hennar hag eins vel og maður getur. 

Að eignast hana er það besta sem ég hef fengið í lífinu. Það verður bara að segjast eins og er. Ég er þakklátur fyrir að fá að vera faðir og því miður eru ekki allir sem fá það. Og án þess að ætla sér það þá eru sumir sem verða fráhverfir börnunum sínum og missa af uppeldi þeirra og æsku. Þannig að maður þakkar bara fyrir þetta.“

mbl.is