Jolie ósátt út í Pitt barnanna vegna

Angelina Jolie á sex börn með Brad Pitt.
Angelina Jolie á sex börn með Brad Pitt. AFP

Leikkonan Angelina Jolie er enn sögð reið út í Brad Pitt þrátt fyrir að þau hafi slitið hjónabandi sínu fyrir rúmlega þremur árum. Er þetta skoðun fjölda heimildamanna bandaríska slúðurblaðsins Us Weekly. 

Á Jolie að vera óánægð með hvernig fór fyrir fjölskyldulífi hennar og barnanna eftir að hjónin slitu samvistum.  

„Angelina er enn mjög gröm út í Brad,“ sagði einn heimildarmaður sem segir að Jolie vilji að Brad Pitt verði látinn taka ábyrgð gjörða sinna. „Henni finnst eins og hann hafi snúið lífi hennar og barnanna á hvolf.“

Í viðtali við Harper's Bazaar sem birtist á dögunum talaði Jolie opinskátt um börn þeirra Pitts. Mátti skynja ákveðna gremju þegar hún gaf í skyn að hún gæti ekki búið þar sem hún myndi helst vilja. „Ég myndi vilja búa erlendis og ég mun gera það um leið og börnin mín verða 18. Akkúrat núna verð ég að vera þar sem faðir barnanna minna kýs að búa.

Pitt og Jolie voru saman í næstum því 12 ár en aðeins gift í tvö ár. Saman eiga þau sex börn. Elstur er Maddox sem er 18 ára en hann er fluttur til Suður-Kóreu þar sem hann stundar háskólanám. Maddox er þekktur fyrir að eiga í slæmu sambandi við föður sinn. 

Angelina Jolie ásamt fjórum af sex börnum sínum.
Angelina Jolie ásamt fjórum af sex börnum sínum. AFP
mbl.is