Ætla ekki að eyða jólunum með fjölskyldunni

Meghan, Harry og Archie ætla ekki að eyða jólunum með …
Meghan, Harry og Archie ætla ekki að eyða jólunum með stórfjölskyldunni í Sandringham. AFP

Hertogahjónin af Sussex, Meghan og Harry Bretaprins, ætla ekki að eyða jólunum með konungsfjölskyldunni í Sandringham líkt og venjan er. 

Þetta eru fyrstu jólin þeirra sem fjölskylda en sonur þeirra Archie kom í heiminn nú í vor. Það er ekki alveg ákveðið hvar fjölskyldan mun dvelja um jólin, kannski í Bandaríkjunum hjá mömmu Meghan, Doriu eða á heimili þeirra, Frogmore Cottage. 

Hefðinni samkvæmt býður Elísabet drottning fjölskyldunni að eyða jólunum í Sandringham í Norfolk. Þar munu Vilhjálmur Bretaprins, Katrín hertogaynja og börn þeirra eyða jólunum ásamt sinni nánustu fjölskyldu. Harry og Meghan hafa eytt síðustu tveimur jólum þar. 

Þetta verður í annað skiptið á ævinni sem Harry eyðir ekki jólunum hjá ömmu sinni, en í fyrsta skiptið sinnti hann herskyldum sínum í Afganistan yfir jólin. Drottningin hefur haldið jólin í Sandringham síðan 1952. Vilhjálmur og Katrín hafa tvisvar eytt jólahátíðunum hjá foreldrum Katrínar, en annars hafa þau alltaf verið í Sandringham.

Samkvæmt heimildarmanni The Sun þurfa Meghan og Harry að endurhlaða batteríin yfir hátíðirnar. „Þau þurfa að taka sér tíma í burtu til að endurhlaða sig og ákveða hvað þau ætla að gera á næsta ári,“ sagði heimildarmaðurinn.

„Jólin í Sandringham geta verið svolítið stressandi svo kannski vilja þau ekki fara með Archie svona lítinn,“ sagði konunglegi ævisöguritarinn Ingrid Seward í viðtali við The Sun. 

„Mér finnst sorglegt að þau vilji ekki vera hluti af fjölskyldusamkomu, sérstaklega núna þegar drottningin og hertoginn af Edinborg eru orðin eldri. Drottningin gæti verið smá sár en hún er of kurteis til að sýna það,“ sagði Seward.

mbl.is