Bloom lærði af biturri reynslu

Katy Perry og Orlando Bloom.
Katy Perry og Orlando Bloom. mbl.is/AFP

Leikarinn Orlando Bloom virðist ekki getað hætt að tjá sig um löngun sína til þess að eignast börn með unnustu sinni, Katy Perry. Parið trúlofaði sig á þessu ári og styttist nú í brúðkaup þeirra. Bloom, sem á nú þegar átta ára gamlan strák og eitt hjónaband að baki, virðist hafa lært sína lexíu. Hann segist þó vilja eignast börn með Perry þegar rétti tíminn kemur. 

„Ég vil virkilega njóta fjölskyldu og vina, fallega sonar míns og eignast fleiri börn,“ sagði Bloom í nýju viðtali að því fram kemur á vef Daily Mail. 

„Ég vil vera viss um að ég geri það heilshugar og sé með alveg á hreinu hvað það þýðir, en sé ekki með einhverja rómantíska hugmynd um hvað það þýði að vera í sambandi,“ sagði Bloom.

„Ég held að okkur hafi öllum verið seld þessi Hollywood-hugmynd um ást, sambönd, hjónabönd og börn þegar við vorum yngri en í rauninni snýst þetta um samskipti og málamiðlanir,“ segir Bloom og segir lykilinn að góðu fjölskyldulífi sé að finna hamingju í einföldu og litlu hlutunum. 

mbl.is