Enn að venjast því að eiga tvö börn

Ellie Kemper eignaðist sitt annað barn í haust.
Ellie Kemper eignaðist sitt annað barn í haust. AFP

The Office-stjarnan Ellie Kemper segist enn vera að venjast því að hún eigi tvö lítil börn. Kemper eignaðist sitt fyrsta barn með eiginmanni sínum Michael Koman árið 2016 og annað nú í haust.

„Ég er svo þreytt. Þetta er bara nýr raunveruleiki og mér finnst það hafa tekið á að venjast því. Það er svo fyndið því áður en maður eignaðist barn lifði maður ákveðnum lífsstíl. Síðan eftir að maður eignast barn rekst maður á fleiri foreldra sem eru að ganga í gegnum nákvæmlega það sama og maður sjálfur. Og það er þægilegt. Maður fattar að maður er ekki einn,“ sagði Kemper í viðtali við Us Weekly.

Þó að margir hafi sagt leikkonunni að hún myndi venjast því fljótt að eiga tvö börn sagðist hún ekki vera viss um að hún myndi gera það. „Þetta er klikkað. Eiginmaður minn sagði mér að hann hefði ekki haft aukamínútu til að svara tölvupósti um daginn. Þetta er eins og að bíða eftir að fugl fljúgi framhjá, að eiga þá stund í frítíma,“ sagði Kemper.

mbl.is