Gagnrýnd fyrir að nota staðgöngumóður

Elizabeth Banks á tvo syni.
Elizabeth Banks á tvo syni. AFP

Leikkonan Elizabeth Banks segir að hún hafi verið gagnrýnd fyrir að eignast börn sín í gegnum staðgöngumóður. 

Hin 45 ára Banks á tvö börn, þá Felix 8 ára og Magnus 7 ára. Hún og eiginmaður hennar, Max Handleman, eignuðust þá í gegnum staðgöngumóður. 

Í forsíðuviðtali við Net-a-Porter segir hún að hún hafi ekki getað gengið með syni sína vegna ófrjósemisvandkvæða sem hún fór ekki nánar út í. Þrátt fyrir að hafa ekki getað gengið með syni sína þá finnst henni fólk hafi dæmt hana fyrir að nota staðgöngumóður til að eignast börn. 

„Ég held klárlega að fólk gagnrýni mig enn fyrir það sem við gerðum og fólk skilur ekki val mitt, en mér finnst ég ekki skulda neinum að útskýra. En ef saga mín hjálpar einhverjum og lætur fólki líða eins og það sé ekki eitt þarna úti, þá er ég þakklát fyrir það,“ sagði Banks. 

Banks vinnur úti og kom að handritsgerð og framleiðslu kvikmyndarinnar Charlie's Angels auk þess sem hún lék í henni. Henni finnst einnig mikilvægt að sýna sonum sínum vinnuna sína. 

„Mamma mín vann úti þegar ég var barn og hún hafði mikil áhrif á vinnusiðferði mitt. Mér finnst gaman að leyfa þeim að vera hluti af vinnunni minni. Ég held það sé mikilvægt sem vinnandi kona og leiðtogi í kvikmyndatökuveri að sýna öðrum mömmum að það er í lagi að koma með börnin í vinnuna,“ sagði Banks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert