Kim drekkur sjaldan áfengi þessa dagana

Kim Kardashian er alveg hætt að djamma.
Kim Kardashian er alveg hætt að djamma. AFP

Raunveruleikaþáttastjarnan og viðskiptakonan Kim Kardashian West bragðar örsjaldan áfengi eftir að hún varð fjögurra barna móðir. Hún segir gott skipulag lykilinn að því að heimilislífið gangi smurt fyrir sig. 

Kardashian West á fjögur börn með eiginmanni sínum Kanye West. Hún rekur einnig nokkrar vefverslanir þar sem hún selur aðhaldsfatnað, snyrtivörur og ilmvatn. Það eru því margir boltar á lofti á stóru heimili Kardashian West.

„Ég fer að sofa þegar börnin fara að sofa. Ég drekk ekki. Ég er aldrei lengi úti á kvöldin. Svo ég held að það hjálpi okkur mikið,“ sagði Kardashian í viðtali við ástralska morgunþáttinn Sunrise. 

„Ég skipulegg öll smáatriði dagsins. Ég veit á hverjum degi þegar ég vakna á ákveðnum tíma að dagskráin mín er ströng. Og mér finnst ekki gott að bregða út af henni því hún er skipulögð út frá fjórum börnum, og maður verður bara að vera svo skipulagður. Skipulag er lykilatriði,“ sagði Kardashian West.

Það er langt um liðið síðan hin 39 ára gamla Kardashian West fór á djammið öll kvöld og neytti eiturlyfja. Hún viðurkenndi í fyrra að hún hefði verið á sýru í fyrsta skiptið sem hún gekk í hjónaband. Það var árið 2000 og giftist hún tónlistarframleiðandanum Damon Thomas. Hún var líka á sýru þegar hún tók upp kynlífsmyndbandið með Ray J árið 2003. 

Heimildarmenn People segja að Kardashian hafi ekki neytt eiturlyfja í nokkur ár og að hún drekki eiginlega aldrei. „Hún drekkur af og til, en heldur sig eiginlega alveg frá því. Hún fær sér kannski kampavínsglas í fríi eða í afmæli hjá einhverjum en það er sjaldgjæft,“ sagði heimildarmaðurinn. 

mbl.is