Hélt hún hefði séð ókunnuga konu á öryggismyndavélinni

Leila sá huldukonu sitja með börnunum niðri í stofu.
Leila sá huldukonu sitja með börnunum niðri í stofu. Skjáskot/Facebook

Fjögurra barna móðurinni Leilu í Bandaríkjunum var brugðið í brún þegar hún sá ókunnuga konu sitja með börnum sínum í sófanum á öryggismyndavélinni.

Leila hafði skilið börnin sín eftir að horfa á sjónvarpið á meðan hún hafði sig til fyrir daginn. Hún er með öryggismyndavél í stofunni og var með streymi úr stofunni á spjaldtölvu fyrir framan sig. 

Þegar hún leit niður á streymið varð henni felmt við, þar sem ókunnug kona sat með börnum hennar í stofunni. Hún hljóp niður til að athuga málið og þá var enginn þar nema börnin hennar. 

„Mér leið eins og manneskjan hefði gufað upp fyrir framan mig. Ég sá manneskjuna þarna,“ sagði Leila í viðtali við Kidspot. 

Hún hljóp aftur upp til þess að athuga streymið og sá þá konuna enn þá sitja þar. Á meðan hringdi hún í mömmu sína. 

Stuttu síðar rann upp fyrir henni hver konan væri. „Ég beindi myndavélinni á símanum mínum að skjánum til að sýna mömmu minni og þá fattaði ég hvað hafði gerst. Þetta var ég, ég var draugurinn á sófanum,“ sagði Leila. 

Þá hafði hún óvart stillt á myndband frá því fyrr um daginn en ekki á beina streymið. Margir hafa furðað sig á því hvernig hún þekkti sjálfa sig ekki á myndbandinu. Leila segir myndgæðin ekki vera mikil og að hennar ljósa hár liti út mun dekkra á myndavélinni. Þar að auki hafi hún aðallega verið að hugsa um öryggi barna sinna en ekki hver draugurinn væri.

Leila á fjögur börn.
Leila á fjögur börn. Skjáskot/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert