Dóttir Depp og Paradis ánægð með foreldra sína

Lily-Rose Depp er tvítug.
Lily-Rose Depp er tvítug. AFP

Hin tvítuga leikkona Lily-Rose Depp er dóttir fyrrverandi stjörnuparsins Johnnys Depps og Vanessu Paradis. Hún segir í nýju viðtali að hún hefði ekki getað fengið betra uppeldi og er ánægð með foreldra sína. Uppeldið var ævintýralegt og alls ekki strangt sem kemur kannski ekki á óvart. 

„Foreldrar mínir voru ekki mjög strangir. Þeir treystu mér til þess að vera sjálfstæð og til þess að taka mínar eigin ákvarðanir. Það var ekkert til þess að sýna mótþróa gegn,“ sagði leikkonan unga að því fram kemur á vef The Sun

Lily-Rose Depp segist aldrei hafa verið með það markmið að fara í háskóla enda hættu foreldrar hennar bæði í skóla 15 ára gömul. Hún setti alltaf stefnuna á að vinna. 

Leikkonuna ungu dreymdi þó ekki alltaf um að verða leikkona. Þegar hún var yngri var það söngferill móður hennar sem heillaði. „Þegar ég var yngri vildi ég verða söngkona bara af því að ég vildi verða eins og mamma. Allar litlar stelpur langar til þess að verða eins og mæður sínar,“ sagði Depp. 

Foreldrar Lily-Rose Depp hættu saman árið 2012 þegar dóttir þeirra var 14 ára. Hún þakkar foreldrum sínum fyrir að halda sér niðri á jörðinni. Depp býr í New York og reynir að halda einkalífi sínu út af fyrir sig eins og hún getur enda lært ýmislegt af foreldrum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert