„Unglingarnir halda að þau séu að deyja eftir að prófa spice“

Guðrún Björg Ágústsdóttir ráðgjafi hjá Foreldrahúsi segir spice-faraldur kominn í …
Guðrún Björg Ágústsdóttir ráðgjafi hjá Foreldrahúsi segir spice-faraldur kominn í öll hverfi borgarinnar. mbl.is/Hari

Guðrún Björg Ágústsdóttir ráðgjafi hjá Foreldrahúsi er á þeirri skoðun að eins konar spice-faraldur sé farinn af stað í öllum hverfum borgarinnar. Börn allt niður í 8. bekk séu að neyta fíkniefnisins í gegnum rafrettur. Spice, efnið sem stundum er nefnt gervi-kannabisefni, er mun hættulegra en kannabis og hefur dregið fjölda fólks til dauða ef marka má fregnir erlendra fjölmiðla. Það sem kemur hvað mest á óvart að mati Guðrúnar, er að sum barnanna virðast slysast til að prófa efnið, þegar þau fá sér smók úr rafrettum kunningja eða vina.  

Einkennin af því að reykja spice að sögn Guðrúnar eru aukinn hjartsláttur, hár blóðþrýstingur, ofskynjanir, ofsóknaræði, kvíðaköst og árásagirni svo eitthvað sé nefnt. 

„Þetta er stórhættulegt efni og hef ég hitt börn sem eftir neyslu á efninu verða svo hrædd að þau biðja um að vera keyrð niður á spítala því þau halda að þau séu að deyja. Þau sem finna minni áhrif af efninu tala sum hver um að vera undir áhrifum í tvo til þrjá daga. Við höfum því talsverðar áhyggjur af þessu efni þar sem það er mun sterkara en sem dæmi THC, sem er virka efnið í kannabisplöntunni. Efnið er gert á tilraunastofu en á meðal skammtímaáhrifa eru mikil gleði og ánægja, en síðan tekur við kvíði og mikil vanlíðan.

Hvernig er dæmigerð saga barns sem prófar spice?

„Krakkarnir byrja að veipa, stundum í skólanum og í upphafi er þetta frekar saklaust að þeirra mati. Þau fá sér þá smók af veipi, með jarðarberjabragði og prófa í fyrsta skiptið nikótín í veipinu. Þau vita að nikótín er ávanabindandi, en unglingar eru áhrifagjarnir og hvatvísir í eðli sínu. 

Sum þeirra barna sem ég hef hitt hafa ekki vitað að í veipinu sem þau prófuðu var THC eða jafnvel spice. Síðan er mikilvægt að vita að verðið á spice er lægra en verð á kannabis. En það sem við sjáum í langflestum tilvikum er að krakkarnir eru að reykja efnin með veipi og fá smók eða kaupa efnin af skólafélögum sem eru þá kannski einu eða tveimur árum eldri.“

Guðrún lýsir því hvernig sumir krakkanna eiga einvörðungu munnstykki af veipi í vasanum og fá þá smók hjá öðrum. „Þetta eru þá stundum krakkar sem leggja ekki í að versla sjálfir, en vita lítið sem ekkert hvað þau eru að fá að reykja hjá öðrum.“

Þeir sem selja efnin virðast nota það sem markaðssetningu að kannabis sé lífrænt en Guðrún segir að spice-efnið sé margfalt sterkara en kannabis og það sé ekki á valdi ungra barna að stilla af skammtinn sinn rétt eða hóflega. Sér í lagi þar sem þetta er oft gert í flýti fyrir framan veip-búðir, í frímínútum eða eftir skóla. 

Guðrún segir að fyrir sumarleyfi á þessu ári hafi hún heyrt um einungis fáein mál þar sem spice-efnið kom til sögu, en segir að í upphafi skólaárs hafi málunum jafnt og þétt verið að fjölga. 

„Efnið er greinilega komið í umferð og því er beint til barnanna okkar sem er ekki gott. Efnið er lyktarlaust og það er ódýrt, svo brýna þarf fyrir börnum og unglingum í öllum hverfum borgarinnar að fara ekki af stað í þennan leiðangur.“

Er þessi faraldur alls staðar eða meira í einu hverfi en öðru?

„Efnið er komið í öll hverfi. Við heyrðum fyrst af því í Breiðholtinu og Grafarvogi en nú er það komið út um allt. Margir skólar eru að standa sig vel þegar kemur að þessum málum og senda til okkar beiðni um að halda fyrirlestra tengda þessu. Skólar með virka forvarnastefnu senda einnig foreldra og börn til okkar, ef grunur leikur á neyslu. Okkar reynsla er sú að því fyrr sem tekið er á svona málum því betra.“

Hvað viltu segja við þá foreldra sem grunar að ekki sé allt með felldu hjá börnum sínum?

„Að hafa samband við okkur eða aðra ráðgjafa sem geta veitt þeim stuðning. Það eru ekki allir krakkar að nota sterkari efni í veipin sín, en ef barnið þitt er komið í þetta ferli, þá verður að líta á það sem ferli og möguleika á frekari neyslu. Eins ef foreldra grunar að spice sé í veipi barna sinna, þá hvet ég þá til að fara með veipið til lögreglunnar að láta rannsaka það.“

Hvað með þá foreldra sem óttast fordóma?

„Ég hvet alla foreldra að vera frekar tilbúna að mæta fordómum og fá þá stuðning til að leysa úr því, en að þurfa að ganga í gegnum að hafa ungling í neyslu. Í Foreldrahúsi sem dæmi erum við með foreldrahópa og síðan viðtöl fyrir foreldra og unglinga hjá ráðgjöfum.“

Guðrún ítrekar mikilvægi þess að foreldrum finnist þeir ekki standa einir og hjálparlausir. Enda þykir eðlilegt að leita sér aðstoðar ef unglingur sem dæmi handleggsbrotnar og ekkert foreldri sem gerir þær kröfur til sín að lagfæra slíkt sjálft. 

„Hér á landi eru fjölmargir sérfræðingar sem sérhæfa sig í að aðstoða unglinga og foreldra í vanda. Það er engin skömm fólgin í því að fræðast eða leita sér aðstoðar á þessu sviði. Svo síður sé.“

Guðrún segir mikilvægt að foreldrar geri það sem alltaf hefur virkað þegar uppeldi unglinga er annars vegar. Að fylgjast vel með börnunum sínum, njóta samveru með þeim og hafa þau nálægt sér á kvöldin og um helgar.

„Unglingar eru hvatvísir í eðli sínu. Stundum finnst mér hinir fullorðnu treysta unglingunum sínum fyrir fram. Góður rammi er það sem gildir hér að mínu mati. Það er hollt að unglingurinn sé í tómstundum, komi heim eftir skóla, borði kvöldmat heima með fjölskyldunni og fleira í þeim dúr. Að ungt barn sé með strætókort og fari á milli hverfa getur boðið hættunni heim. Enda ómótaðir áhrifagjarnir krakkar að lenda í óhöppum sem þeir sjá ekki fyrir í svoleiðis ævintýraferðum.“

Guðrún segir að þótt spice-faraldurinn sé að ná til alls konar barna, sé mikilvægt að halda sérstaklega vel utan um þá einstaklinga sem eru með undirliggjandi kvíða. Þau börn og unglingar sem eru að flytja, að ganga í gegnum skilnað foreldra sinna, hafa eða eru að lenda í einelti og fleira í þeim dúr. Þetta séu börnin sem þurfa heilbrigðan stuðning frá fólki sem getur sinnt þeim og aðstoðað í gegnum lífið. Það sé mikil sjálfvirðing og keppikefli fyrir alla að huga að unga fólkinu í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert