Hræddist að verða móðir

Greta Gerwig eignaðist barn í mars.
Greta Gerwig eignaðist barn í mars. AFP

Leikstjórinn og leikkonan Greta Gerwig eignaðist barn í hálfgerðu leyni í mars. Hún var kominn sex mánuði á leið þegar tökum á myndinni Little Women lauk en þrátt fyrir það vissu ekki allir leikararnir að hún ætti von á barni. Myndinni er spáð góðu gengi á komandi verðlaunahátíðum en í viðtali við Vogue segist hún rétt hafa náð að grófklippa myndina áður en sonurinn kom í heiminn.

„Ég var alltaf hrædd við að verða móðir,“ viðurkennir Gerwig í viðtalinu. „Í ljósi þess hvað það þýddi að ég gæti gert.“

Gerwig segist hafa litið upp til rappkonunnar Cardi B þegar hún var ólétt og sé yfir höfuð hrifin af konum sem ætla sér að gera allt. Sjálf virðist Gerwig vera ein af þeim konum sem geta allt en hún vann alla meðgönguna að verðlaunamynd. Sonur hennar Halold kom í heiminn 24 tímum eftir að hún kláraði að grófklippa myndina.  

 „Ég gerði bara ráð fyrir að þetta væri hennar stíll,“ sagði Timothée Chalamet, einn af leikurum í Little Women, en hann virtist ekki taka eftir óléttu Gerwig og hélt bara að hún hefði breytt um fatastíl.

Greta Gerwig og Noah Baumbach.
Greta Gerwig og Noah Baumbach. AFP
mbl.is