Karlottu langar í smáhest í jólagjöf

Karlotta er mikil hestakona eins og langa amma sín.
Karlotta er mikil hestakona eins og langa amma sín. AFP

Karlotta prinsessa er ekki svo ólík öðrum fjögurra ára stúlkum í heiminum en efst á jólagjafaóskalista hennar er smáhestur. 

Karlotta litla er sögð vera einstaklega gefin fyrir hesta líkt og langamma hennar, Elísabet Englandsdrottning. Sú stutta hefur verið mikið í hestamennskunni og er sögð hafa farið í fyrsta skipti á bak þegar hún var 18 mánaða. 

Langamma hennar er að sjálfsögðu þekkt fyrir að vera mikil hestamanneskja og hefur ræktað veðhlaupahesta um árabil. 

Það er þó ekki víst að prinsessan litla fái ósk sína uppfyllta þessi jólin, en foreldrum hennar finnst hún of ung til þess að eignast eigin hest. Það er þó aldrei að vita hvort draumar hinnar konungbornu Karlottu rætast ekki á næstu árum, ekki skortir fjölskylduna peninga eða áhuga fyrir hestum. 

Stóri bróðir hennar Georg er töluvert hógværari í jólagjafaóskum sínum en efst á lista hans er nýr tennisspaði og fótboltaborð. Óvíst er hvað litla bróður þeirra Lúðvík langar í, enda er hann bara rúmlega eins árs og nýlega farinn að tala. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert