Sex ára Georg í framsæti bíls föður síns

Hinn sex ára gamli Georg fær að sitja í framsæti …
Hinn sex ára gamli Georg fær að sitja í framsæti á bíl. AFP

Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja mættu hvort á sínum bílnum í árlegt jólaboð Elísabetar Bretadrottningar í vikunni. Á meðan yngri börnin tvö sátu aftur í í bíl móður sinnar fékk hinn sex ára gamli Georg að sitja í framsætinu í bíl föður síns. Georg er aðeins sex ára en á Íslandi mega jafnaldrar Georgs ekki sitja í framsætinu. Athygli vekur að fullorðnir einstaklingar sátu aftur í á meðan hinn sex ára gamli Georg situr í framsætinu. 

Á Íslandi er mælt með því að börn nái 150 sentimetra hæð áður en þau fá að sitja í framsæti. Á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda er farið vel yfir reglurnar. 

„Barn minna en 150 sm má ekki undir neinum kringumstæðum sitja í framsæti þar sem loftpúði er, hvort sem er í barnabílstól eða án. Börnin skulu vera í aftursæti nema þá að búið sé að aftengja og helst að fjarlægja loftpúðann við framsætið,“ stendur á vef FÍB. 

Á vef People er farið yfir öryggisreglur sem gilda í Bretlandi. Eru lítil börn sem ekki hafa náð 12 ára aldri sögð þurfa að sitja í ákveðnu bílsæti fyrir börn ef þau sitja í framsæti. Er Georg sagður hafa verið í bílsæti fyrir börn þegar hann fékk að sitja fram í hjá föður sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert