Varð móðir 18 ára og lífið breyttist til hins betra

Sigrún Sigurpáls býr á Egilsstöðum með börnum sínum fjórum og …
Sigrún Sigurpáls býr á Egilsstöðum með börnum sínum fjórum og sambýlismanni. Hér er hún með næstelsta barni sínu, Árna Þór. Ljósmynd/Aðsend

Samfélagsmiðlastjarnan Sigrún Sigurpálsdóttir býr á Egilsstöðum og á fjögur börn á öllum aldri. Elsta barnið hennar er 16 ára gamall unglingur en yngri þrjú börnin á hún með sambýlismanni sínum Steinþóri Guðna Stefánssyni og er það yngsta aðeins tveggja ára gamalt. Sigrún segir að meðgöngurnar hafi reynst henni erfiðari með aldrinum en allar fæðingarnar voru mjög ólíkar. 

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Ég vil vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín, kenna þeim góð gildi og ég vil geta veitt þeim þá ást og umhyggju sem þau þurfa. Samband okkar mæðgna, mín og elstu stelpunnar minnar, er til dæmis nákvæmlega dæmi um hvernig mamma ég vil vera. Hún talar við mig um allt, segir mér allt og við eigum alveg ótrúlega gott samband sem er mér svo mikilvægt. Ég vil að börnin mín geti leitað til mín með hvað sem er.“

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Ég legg mikla áherslu á að þau læri að við búum öll á sömu plánetunni og eigum þar af leiðandi öll sama tilverurétt. Ég legg svo gríðarlega áherslu á að kenna þeim að einelti og stríðni er eitthvað sem að við tökum ekki þátt í. Ég vil að þau læri að vera sjálfstæð og kunni að standa og falla með ákvörðunum sínum.“

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

„Það breyttist heilmikið. Og svo breytist það með hverju barninu sem bættist við. Ég var náttúrulega ung þegar ég varð mamma. Ég var nýorðin 18 ára þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn svo stökkið var svolítið stórt þar sem jafnaldrarnir voru ekki mikið farnir að huga að barneignum. En lífið breyttist svo sannarlega til hins betra eftir að ég varð mamma.“

Stutt er á milli yngri barna Sigrúnar.
Stutt er á milli yngri barna Sigrúnar. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gengu meðgöngurnar?

„Ég legg alla vega ekki í fleiri meðgöngur eftir síðustu meðgöngu en meðgöngurnar urðu einhvern veginn erfiðari með hverju barni. Ég gekk 42 vikur með elstu en meðgangan sjálf gekk vel. Hún var hins vegar stærsta barnið mitt og ég var lengi að jafna mig eftir þá fæðingu. Önnur meðganga gekk eiginlega best, ég var í líkamlega betra formi og léttari á mér, þyngdist minna en á fyrstu meðgöngu nema síðari hluta meðgöngunnar fór ég að finna fyrir grindargliðnun. Þriðja meðganga gekk sæmilega, ég var hálfslöpp og hálfveik bara alla meðgönguna. Ældi fram á 18. viku og leið ekki vel og var enn verri í grindinni. Fjórða meðgangan var svo erfiðust. Ég var mjög slöpp alla meðgönguna, með mikinn bjúg og hafði varla orku í að standa undir sjálfri mér. En ég greindist svo með meðgöngueitrun á 33. viku og átti á 34. viku.“

Var öðruvísi að eignast fyrsta barnið en yngri börnin?

„Já það var allt öðruvísi. Það liðu tíu ár frá fyrsta barni og að öðru barni en munurinn liggur held ég aðallega í aldrinum á mér. Það munar mjög miklu að eignast barn 18 ára og að eignast barn 28 ára. Ég fann bara hvernig ég var mikið betur tilbúin fyrir allt 28 ára og skildi hlutina einhvern veginn miklu betur.“

Sigrún á dótturina Elisabeth Önnu sem er 16 ára.
Sigrún á dótturina Elisabeth Önnu sem er 16 ára. Ljósmynd/Aðsend

Hvað kom þér á óvart varðandi móðurhlutverkið?

„Kannski ekki svo margt, ég var 12 ára þegar ég eignaðist litla systur og var alltaf mikil mamma í mér svo ég held ég hafi verið nokkuð vel undirbúin þannig séð. En það eru breyttir tímar og það er mikil pressa á mæðrum í dag. Þetta var ekki svona þegar ég átti fyrsta barn. Ég upplifið það alla vega ekki þannig þá en finn það núna.“

Hvernig er að ala upp ungling á sama tíma og lítil börn?

„Það er svolítið púsluspil stundum. Yngri börnin þurfa náttúrulega miklu meiri umönnun en unglingurinn og því fer oft mikill tími í að sinna þeim. En svo fáum við mæðgur góðan tíma oft þegar börnin eru sofnuð. Stundum þarf ég nú að kveikja á sjónvarpinu fyrir þau yngri til að fá frið til að hjálpa elstu með heimalærdóm og þetta eru bara aðstæður sem við gerum það besta úr. Hún hjápar mér líka á heimilinu og með systkini sín og ég er ofboðslega heppin með það. Ég veit ekki hvar ég væri án unglingsins míns.“

Sigrún á sex ára gamlan strák og fjögurra ára gamlan …
Sigrún á sex ára gamlan strák og fjögurra ára gamlan strák með sambýlismanni sínum, Steinþóri Guðna Stefánssyni. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hreyfðir þú þig þegar þú varst ólétt?

„Ég hef aldrei stundað líkamsrækt á meðgöngu en fór reglulega í göngutúra. Ég keypti mér bara mannbrodda ef það var vetur. Ég mæli með því, ekkert grín að detta á meðgöngu en það hentaði mér einhvern veginn best að ganga úti í fersku lofti.“

Hvernig komstu þér í form eftir meðgöngu?

„Númer eitt, tvö og þrjú er að leyfa líkamanum að jafna sig eftir meðgöngu. Hann tekur sex vikur í að jafna sig að mestu og ég hef alltaf hlýtt því þar sem mér finnst það skipta miklu máli. Ég þyngdist um 30 kíló á fyrstu meðgöngu en léttist um 45 kíló eftir að ég átti. Ég sem sagt léttist alveg svakalega í brjóstagjöfinni og um leið gekk ég ofboðslega mikið með vagninn, enda að vori sem hún fæddist og góður tími fyrir göngutúra.

Á þeim tíma var ég ekkert mikið að spá í að koma mér í eitthvert form. Ég var bara að læra nýtt hlutverk og einbeitti mér að því. Þarna kemur að þessari pressu sem ég nefndi áðan því þá var ekki svona mikil umræða um að koma sér í form eftir meðgöngu. Eftir að annað barnið mitt var orðið fimm mánaða fékk ég mér einkaþjálfara og æfði mjög mikið. Ég keppti í fitness þegar hann var 14 mánaða. Það var einhver manía sem ég fékk þar sem brjóstagjöfin var ekki að virka í það skiptið,“ segir Sigrún í gríni. 

Sigrún nýtur þess að fara út að ganga.
Sigrún nýtur þess að fara út að ganga. Ljósmynd/Aðsend

Svo verður þetta flóknara þegar börnunum fjölgar og mjög eðlilegt að maður nái ekki að mæta í ræktina með mörg börn. Ég hef verið dugleg að ganga á kvöldin þegar börnin eru sofnuð og sú hreyfing gerir alveg ofboðslega mikið fyrir mig. Ég náði af mér 12 kílóum eftir að ég átti Eydísi bara með því að minnka matarskammtana og ganga á kvöldin.“

Hvernig eru þínar fæðingarsögur?

Fyrsta barn:

„Ég var gengin 41v 5d og ekkert að gerast. Leghálsinn ekkert að taka við sér og leit út fyrir að barnið ætlaði að vera þarna í nokkrar vikur í viðbót. Ég fékk fjöldann allan af stílum upp í leggöngin sem gerðu ekkert gagn og á endanum þurfti að hálfpartinn þvinga/rífa leghálsinn upp svo hann myndi byrja að opnast. Þá var loksins hægt að sprengja belginn og það var milli 11 og 12 og þá byrjuðu bara harðar hríðar. Ég fékk svo mænudeyfingu sem bjargaði mér alveg en mér var svo gefið dreypi í æð til að auka hríðirnar til að koma þessu almennilega af stað. Um 17:30 mátti ég svo loks fara að rembast og kl 17:54 kom Elísabeth í heiminn 17 merkur og 54 cm.“

Annað barn:

„Ég var komin 39v 5d og var búin að vera með slæman túrverkjaseyðing um morguninn, mér var boðið að koma og láta hreyfa við belgnum sem ég þáði og við að jókst seyðingurinn. En ég fann ekkert svo mikið fyrir honum því ég var með brotna fyllingu og tannpínu og náði að fá neyðartíma hjá tannlækni. Þannig að ég var þarna komin með hríðarverki, hjá tannlækni með tannpínu. Ekki eitthvað sem ég mæli með en tannlæknirinn bjargaði mér alveg og lagaði tannpínuna. Ég heimtaði svo að kallinn keyrði mig í Hagkaup (þá bjuggum við á Akureyri) því ég VARÐ að fá salatbar. Ég stökk svo á milli rekka í verstu verkjunum blásandi og másandi, en þarna var ég ekkert komin af stað í mínum huga, ég var bara með slæma fyrirvaraverki. Við vorum svo ekki búin að vera lengi heima þegar ég gat ekki meira og Steinþór hringdi í ljósuna sem sagði okkur að koma. Ég þurfti að stoppa svona 14 sinnum á leiðinni í lyftuna og inn á biðstofu, og svo aftur út ganginn og inn á fæðingarstofu. Ég átti hann deyfingarlaust og fæðingin gekk eins og í sögu. Hann var um 15 merkur og 50 cm og fæddist 22:20.“

Þriðja barn:

„Ég átti tíma í eftirlit hjá fæðingarlækni komin 38v 4d, ég var orðin svo buguð af grindarverkjum og leið bara ekki vel. Hann skoðaði barnið í sónar og reiknaði út að legvatnsmagnið væri undir mörkum sem útskýrði mjög sársaukafull spörk frá barninu. Þannig að það var ákveðið að gangsetja mig daginn eftir. Sú fæðing gekk líka eins og í sögu og ég náði með hjálp yndislegrar ljósmóður að anda mig í gegnum hríðirnar og gera þetta deyfingalaust en ekkert barnanna minna hefur sparkað eins mikið og hann gerði. Á meðan ég var að rembast meira að segja og ljósan hafði orð á því að hún hefði sjaldan séð annað eins. Maginn gekk til og ég skildi bara ekki hvernig barnið myndi ná að fæðast ef hann gæti ekki verið kyrr. En það tókst nú ansi vel og hann var 13,5 merkur og 51 cm. Hann fæddist um kl. 15. En þess má geta að hann er enn þá jafn virkur í dag og hann var í móðurkviði.“

View this post on Instagram

4 ára meistari 😍 20.10.15 💙

A post shared by Sigrún Sigurpálsdóttir (@sigrunsigurpals) on Oct 20, 2019 at 1:30pm PDT

Fjórða barn: 

„Fjórða barnið var svolítill rússíbani og eitthvað sem ég átti ekki von á að upplifa. Ég varð mjög veik á fyrstu vikunum og gat eiginlega ekki falið meðgönguna þó ég hafi nú reynt það. Ég fékk bara fullt af „flensum“ á þessum tíma. Ég var algjörlega orkulaus alla meðgönguna, járnlítil og þetta var bara allt eitthvað öðruvísi en ég var vön. Elsta dóttir mín fermdist þarna þegar ég var komin á um síðasta þriðjung meðgöngunnar og ég náði lítið að taka þátt í undirbúningi annað en að sitja og segja fyrir verkum, alveg ofboðslega heppin með fólkið í kringum okkur sem sáu um matinn og allt. Ég náði reyndar að skreyta fermingartertuna hennar sem var mikill sigur. 

En svo þegar ég var komin 33 v mældist blóðþrýstingurinn hækkandi og prótein í þvagi svo það var ákveðið að ég færi norður á Akureyri í nánari skoðun og innlögn. Ég sá fyrir mér að ég yrði þar næstu sjö vikurnar. Þarna var ég bara í algjörri slökun og undir góðu eftirliti en ég þoldi svo illa þennan hækkaða blóðþrýsting. Ég fékk svo svakalegan hausverk og þá fann ég bara að blóþrýstingurinn var orðinn hár. Það var svo eina nóttina, viku eftir að ég kom norður að ég fékk sterk verkjalyf vegna höfuðverkjarins og ég hefði átt að ná fimm tíma svefni á þeim en eftir tæpa tvo tíma var ég vöknuð aftur og hausinn á mér við það springa. Þá var ræstur út fæðingarlæknir sem mat það svo að ég yrði að fara suður og þarna var hringd út sjúkraflugvél og ég flutt klukkan fjögur um nóttina. Ég var sem sagt komin með meðgöngueitrun sem er mjög sjaldgæft þegar fólk eignast sitt þriðja barn saman, yfirleitt kemur hún við fyrstu meðgöngu. Og líka því það hafði ekkert borið á þessu á fyrri meðgöngum. Þegar við komum suður hittum við lækni sem sagði okkur það að öll gildi væru að hækka (sem sagt þau sem fylgja meðgöngueitrun) og þegar þangað var komið var eina lækningin að framkalla fæðingu. Ég var því sett af stað og þetta var allt mjög óraunverulegt, barnið allt í einu bara að fara að fæðast, við í Reykjavík, hin börnin og tengdafjölskyldan á Egilsstöðum og mín fjölskylda á Akureyri. Ég á vinkonur í Reykjavík sem létu sitt ekki eftir liggja og stjönuðu við okkur. Ómetanlegt! En þetta gekk vel fyrir utan það að ég var svo kvalin í höfðinu að ég sá illa og þoldi illa ljós. Ég fékk svo aftur sterk verkjalyf eftir að búið var að sprengja belginn því ekki gat ég hugsað mér að þurfa að rembast með þennan hausverk. Ég náði að sofa í alveg einn til tvo tíma, vaknaði svo með rosalega rembingsþörf. Þannig að það var athuguð útvíkkun og þá var ég komin með tíu cm, sofnaði með fjóra í útvíkkun og vaknaði með tíu. Svo þær sögðu mér að prófa bara að rembast í næstu hríð og ég var að reyna að segja þeim að barnið væri komið niður en þeim fannst það nú ólíklegt og svo á meðan þær stóðu þarna hjá mér og voru að spjalla saman kom hríð og ég rembdist svona aðeins og fann að hún bara kom, svo þær þurftu hálfpartinn að stökkva til og taka við henni. Hún var svo agnarsmá fannst okkur. 2.072 gr. (átta merkur) og 43 cm. Hún fór á vöku og fékk þar sondu, en daginn eftir að hún fæddist kom ein af vökunni með hana inn á herbergi til okkar og sagði að dóttir okkar væri svolítið ákveðin, hún vildi ekkert þessa sondu, hún leitaði bara að brjóstinu sem hún fékk og drakk eins og herforingi. Hún dafnar vel og ekki myndi maður ímynda sér að hún hefði fæðst eitthvað fyrir tímann.“

Sigrún eignaðist Eydísi Ylfu fyrir tímann.
Sigrún eignaðist Eydísi Ylfu fyrir tímann. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert