Nýársheit fyrir foreldra

Það gefur börnum mikla gleði að kunna hluti sem börn …
Það gefur börnum mikla gleði að kunna hluti sem börn á þeirra aldri eiga að kunna. Það eflir sjálfstraust þeirra og gefur þeim styrk. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Það að vera foreldri getur verið snúið. Alla foreldra langar að gera eins vel og unnt er fyrir börnin sín. En síðan gerist lífið og það er í mörgu að snúast. 

Eftirfarandi listi er kærleiksrík viðbót inn í líf allra þeirra sem vilja gera eins vel og þeir geta. Hann er í það minnsta góð áminning um það sem raunverulega skiptir máli í þessu lífi. Að börnunum okkar líði sem best og finni að þau eru elskuð fyrir hvað þau eru.

Ég ætla að hlusta betur á það hvernig barninu mínu líður

Eitt af því sem börn þrá hvað mest í lífinu er að fá að líða eins og þeim líður. Að foreldrar þeirra haldi lausu plássi fyrir þau til að upplifa alls konar tilfinningar og fái hæfni og stuðning við að vinna sig út úr hlutunum. 

Á þessu ári ætla ég að leggja mig fram sem foreldri um að hluta á það hvernig barninu mínu líður. Ég ætla að reyn að hætta að stjórna því hvernig barninu mínu líður og vera í núinu með barninu mínu eins og það upplifir daginn. 

Ef barnið mitt er reitt ætla ég að reyna að skilja af hverju. Ég ætla ekki að dæma það eða reyna að fá það til að vera ánægt. Ef barnið mitt er reitt hefur það án efa ástæðu til þess og á að fá tækifæri til að vinna sig út úr því. Ég ætla að taka ábyrgð á mínum hluta í reiðinni ef ég sem foreldri hef farið yfir mörk barnsins. Ég ætla að varpa ljósi á það sem er fallegt og gott í þessu lífi. En ég ætla ekki að kenna barninu mínu að tilfinningar eins og reiði séu best geymdar djúpt niðri í tilfinningalífi þess. Heldur leyfa reiðinni að fá að koma upp og fara út úr kerfi barnsins. 

Ég ætla að kenna barninu mínu að setja mörk

Eitt af því sem mun hjálpa börnum mikið í framtíðinni er að kunna að setja eðlileg mörk í lífinu. Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Foreldrar með skýr mörk ala upp börn með skýr mörk. Foreldrar sem eiga erfitt með að setja mörk ala upp börn sem eiga erfitt með að setja mörk. 

Það að setja heilbrigð mörk er verkefni sem spannar langan tíma. Að setja vinnu í þetta atriði skilar sér margfalt inn í líf barnanna okkar. 

Á nýju ári ætla ég að leggja mig fram um að nei þýði nei og já þýði já. Ég ætla að kenna börnunum sem foreldri að ég skipti máli og þau skipta máli. Ég ætla að sýna þeim að það margborgar sig að vera heiðarlegur og segja sannleikann. Ég ætla að kenna þeim að það er óþarfi að reyna að stjórna öðrum ef maður stjórnar sér sjálfur. 

Ég ætla að umkringja mig heilbrigðu fólki sem virðir mörkin mín og kenna þannig börnum mínum heiðarleg og góð samskipti við aðra. 

Ég ætla að kenna börnunum mínum að biðja afsökunar

Eitt af því sem tilheyrir því að vera mannlegur er að við gerum mistök. Ef við göngumst við því sem við gerum rangt í lífinu kennum við börnunum okkar tvennt: Að taka ábyrgð og að biðjast afsökunar. 

Ef við höfum alltaf rétt fyrir okkur kennum við börnunum okkar að aðrir hafi rangt fyrir sér því fólk er jafn misjafnt og það er margt. 

Auðmýkt og heiðarleiki smækkar okkur ekki sem fólk heldur gerir okkur stærri.

Ef ég bið börnin mín afsökunar og aðra þegar ég geri mistök kenni ég börnunum mínum  hvernig maður skyldi koma fram við aðra. 

Í samskiptum okkar við aðra berum við vanalega helmingsábyrgð á hvernig hlutirnir fara. Stundum getur hlutskipti okkar verið það að við setjum ekki nógu skýr mörk, eða við förum yfir óskýr mörk annarra. 

Ef við gerum okkar besta á degi hverjum, og síðan aðeins betur á hverjum degi, má búast við miklum framförum að liðnu ári. 

Ég ætla að kenna barninu mínu gleði og þakklæti

Hugsanir heyrast og lífsviðhorf okkar smitast yfir í börnin okkar. Ef við erum þakklát fyrir lífið verða börnin okkar ósjálfrátt þakklát fyrir lífið sitt. 

Orðin okkar hafa áhrif. Það hvernig við tölum við börnin okkar verður innri rödd þeirra. Ef við viljum að innri rödd barna okkar sé kærleiksrík og falleg tölum við þannig við börnin okkar. Það er eðlilegt að sýna alls konar tilfinningar, en til að komast hjá því að verða reið við börnin okkar, þurfum við að setja heilbrigð mörk og halda okkur við settar reglur. 

Ég ætla að kenna barninu mínu hæfni

Það sem ég ætla að muna á nýju ári er að ef barnið mitt fær að spreyta sig á grunnatriðum sem börn þurfa að læra fyrir sinn aldur fær það sjálfstraust sem smitast yfir í sambönd þeirra í lífinu. 

Ef ég hins vegar geri allt fyrir börnin mín verða þau óörugg og ósjálfbjarga. 

Það er nauðsynlegt hverju barni að hafa hlutverk á heimilinu. Þannig tilheyra þau fjölskyldunni, sama á hvaða aldri þau eru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert