Elton John öskrar ekki á syni sína

Elton John öskrar ekki á börn sín.
Elton John öskrar ekki á börn sín. AFP

Tónlistarmaðurinn Elton John ætlar aldrei að öskra á börnin sín eða leggja á þau hendur. John sagði í viðtali við Daily Mail að hann hafi sjálfur verið mjög hræddur við viðbrögð móður sinnar þegar hann var barn og vill ekki að börn sín alist upp hrædd. 

John á synina Zachary 9 ára og Elijah 6 ára með eiginmanni sínum David Furnish. Í stað þess að öskra á synina siða þeir þá til með samtali.

„Ég var ákveðinn í því að ég ætlaði ekki að lemja þau, ég var ákveðinn í að ég ætlaði ekki að öskra á þau. Þau myndu vera öguð en ögunin yrði þannig að við myndum tala um hlutina,“ sagði John. 

„Ég vil ekki að þeir séu hræddir og þeir eru það ekki. Þeir eru frábær börn,“ bætti hann við.  

Eftir að John varð fullorðinn hefur hann talað um æsku sína og hversu slæmt samband hann átti við bæði föður sinn og móður. Hann lýsir því svo að hann hafi alltaf verið á nálum sem barn. Hann telur að hræðslan sem hann upplifði í æsku hafi haft mikil áhrif á hann sem einstakling. 

„Æskan þín hefur svo mikil áhrif á líf þitt þegar þú verður fullorðinn. En ekki allir áttu slæma æsku. David átti frábæra æsku, en ég sleit barnsskónum á öðrum tímum. Það var á sjötta áratugnum. Þegar maður hugsar til baka sér maður að ég varð manneskjan sem ég er í dag af því ég var hræddur við allt. Hræðslan stjórnaði lífi mínu. Núna er ég 72 ára og er á hamingjusamasta stað í lífi mínu,“ sagði John.

Elton John og David Furnish eiga tvo syni.
Elton John og David Furnish eiga tvo syni. AFP
mbl.is
Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu

Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu