Leið fyrst eins og móður 5 dögum eftir fæðingu

Ragnheiður Marey var fyrstu dagana á vökudeild. Hér er hún …
Ragnheiður Marey var fyrstu dagana á vökudeild. Hér er hún í fangi foreldra sinna, Rakelar og Jónasar. Ljósmynd/Aðsend

Rakel Rósa Þorsteinsdóttir og Jónas Kári Eiríksson eignuðust sitt fyrsta barn í ágúst þegar Ragnheiður Marey kom í heiminn á Akranesi eftir langa fæðingu. Fæðingin reyndi mikið á móður og barn og var Ragnheiður Marey flutt á vökudeild eftir fæðingu. Í dag er það fallegt bros Ragnheiðar Mareyjar sem gerir hvern einasta dag hjá litlu fjölskyldunni betri. 

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

„Úff, gjörsamlega allt breytist. Ég skil ekkert hvað ég gerði við tímann minn áður en ég átti barn. Bara það að hoppa í sturtu þarfnast plans núna, mér finnst þetta samt ekki slæm breyting,“ segir Rakel Rósa sem segist vilja vera hamingjusöm, sönn og skilningsrík mamma. 

Hvernig hafa fyrstu mánuðirnir með ungbarn verið? 

„Það er pínu erfitt að vera með svona unga og kunna bókstaflega ekkert á hann. Ég get verið hörð við sjálfa mig en hef mikið verið að upplifa þessa viðkvæmni sem er svo oft talað um. Það hefur verið erfitt að púsla lífinu saman en samt sem áður mjög yndislegur tími, ég vil líka meina það að ég skilji loksins núna hvað tímastjórnun er í raun og veru.“ 

Kom eitthvað á óvart? 

„Þörfin sem maður hefur til að tala um barnið er mjög fyndin og eitthvað sem ég bjóst ekki við. Líka hvað allt einhvern veginn verður miklu betra að sjá þetta fallega bros dags daglega!“

Ragnheiður Marey gerir líf þeirra Jónasar og Rakelar betra.
Ragnheiður Marey gerir líf þeirra Jónasar og Rakelar betra. Ljósmynd/Aðsend

Það er alltaf algengara að fólk bíði með barneignir, er fólk í kringum ykkur almennt byrjað að eignast börn?

„Það eru mjög margir í kringum okkur með ung börn, við erum alls ekki fyrst!“ 

Hvernig gekk meðgangan?

„Ég fékk mjög fljótlega verki í grindina og endaði á að geta ekki unnið frá um það bil 26. viku. Sumarið fór þá í það að vera í sjúkraþjálfun og endalaust í sundi til að reyna að líða betur í grindinni. Ég greindist svo með meðgöngusykursýki og náði nú ansi góðum tökum á henni þannig að hún var ekki til vandræða. Undir lokin var ég orðin ansi þreytt og lúin því ég náði ekki að sofa vel og grindin orðin verri, en við því var að búast svo sem.“ 

Hvernig er þín fæðingarsaga? 

„Jæja, „the best part“. 26. ágúst 2019 er sem sagt settur dagur en eins og hjá flestum bólar lítið á barninu. Ég fer daginn eftir í belglos sem er ÓGEÐSLEGA vont. Um kvöldið byrja ég svo að fá aðeins verki en þeir byrja „almennilega“ um nóttina 28. ágúst. Það er ekkert orðið nein regla á verkjunum en ég þrauka nóttina og næ að sofa aðeins á milli hríða og fer í bað og sturtu um morguninn til að reyna að líða betur. Verkirnir voru fljótir að verða vondir og við kíktum upp á HVE (Heilbrigðisstofnun Vesturlands) í kringum fjögur en þar sem það var enn þá svo óreglulegt á milli hríða þá, fékk ég verkjalyf og svefnlyf til þess að geta sofið aðeins sem ég náði aðeins að gera. Þegar ég vakna aftur dett ég í sama hrærigraut og byrja einnig að æla með.

Við náðum að þrauka heima til um klukkan fimm aðfaranótt fimmtudagsins 29. ágúst og förum þá aftur á HVE, en þar sem ég er enn þá með svo óreglulegt á milli hríða þá fæ ég aftur sömu blöndu og áður og send heim að sofa, ég næ því og vakna daginn eftir og enn þá er ég með þessa óreglulegu hríðir, ég man takmarkað eftir þessum degi þar sem hríðirnar voru svo ógeðslega vondar en alltaf of langt á milli til að geta verið virkt stig fæðingar.

Klukkan þrjú er ég komin með algert ógeð af þessu og fer aftur upp á HVE og er loksins lögð inn og fæ einhverja aðstoð. Það er samt enn þá bara verið að reyna að láta mig sofa og fékk ég í þetta skiptið morfín líka með blöndunni góðu og ég náði að sofa til 21. Þá vakna ég LOKSINS með hríðir sem eru með nógu stuttu millibili. Ljósmóðir býður okkur fæðingarstofu sem við tökum við með gleði og kemst ég beint í glaðloftið, verkirnir halda alltaf áfram að verða vondir og Jónas sendir á mömmu að hún megi koma. Mamma besta kemur og ég fæ himnasendinguna sem mænudeyfing er. 

Ég hefði ekki þraukað meira ef ég hefði ekki fengið mænudeyfingu, þarna er klukkan orðin 23. Ég gat þarna borðað en ég var ekki búin að borða síðan á þriðjudeginum, en nú byrjaði alvörupartíið því ég fékk ekki hríðir nema standandi og eins og við vitum þá þarf hríðir til að koma barni niður svo það sé hægt að remba því út. Þetta varð fljótlega mjög erfitt og ég varð virkilega örmagna á því að þurfa standa til að eitthvað myndi gerast, hérna er tengdó mætt líka. Ég fékk síðan nefsprey sem átti að hjálpa hríðunum en það virkaði alls ekki.

Um klukkan þrjú aðfaranótt 30. ágúst var ég endalaust að dotta inn á milli því ég átti ekki snefil eftir. Þetta var svo skrítið og virkilega óþægilegt hvað hríðirnar duttu niður en ég fékk dripp klukkan fimm. Ég fæ þá líka hita en hríðirnar verða alltaf sterkari og sterkari. Fljótlega fæ ég rembingsþörf og fæ grænt ljós um að mega byrja að rembast, það gekk ekki alveg eins og í sögu og á einum tímapunkti var kominn læknir til að fylgjast með og einnig sjúkraliði. Rembingurinn er að mínu mati samt viðbjóðslegasti parturinn af þessu öllu, jesús kristur. Ég heyri ljósmóðurina svo segja að ég fái ekki mikið lengri tíma og ég verð þá frekar hrædd og held áfram að rembast. LOKSINS kemur hún svo klukkan 06:36 þann 30. ágúst 2019.

Það fyrsta sem ég heyrði ljósmóðurina segja var „grænt legvatn” og þá fer einhver svakaleg aðgerð í gang þar sem það er þá líka kallað í svæfingalækni en Marey grét ekki heldur. Það var í rauninni bara klippt á naflastrenginn og hún tekin og reynt að fá hana til að sýna einhvern lit. Hún fæddist sem sagt með vot lungu vegna þess að hún var stressuð á að vera svona lengi í hríðunum (sem voru um 52 klukkustundir) og kúkaði þá í legvatnið sitt og drakk það svo auðvitað. Þess vegna grét hún ekki en var samt alveg með púls.

Ljósmóðirin kemur með hana til mín í 30 sekúndur og svo eru hún og Jónas farin á vökudeildina. Ég sé hana ekki fyrr en um fimm tímum síðar sem var mjög erfitt en ég fékk einhvern svaka ofurkonukraft og bara gerði allt sem ég þurfti til að geta fengið að færa mig yfir á Landspítalann sem fyrst. Það var mjög erfitt að vera með barn á vöku og mér leið fyrst eins og ég væri mamma fimm dögum eftir að hún fæddist þegar ég loksins fékk hana með mér heim og fékk að hugsa um hana án aðstoðar þannig séð. Þetta hefur líka brennt mig pínulítið og ber ég enn þá smá súrar tilfinningar út í fæðinguna.“ 

Litla fjölskyldan.
Litla fjölskyldan. Ljósmynd/Aðsend

Besta ráðið sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum? 

„Hlusta á sjálfa sig númer eitt, tvö og þrjú og treysta sér bara. Ég vildi að ég hefði aðeins staðið upp fyrir mér í fæðingunni og svona. Mér finnst líka gott að minnast á það að leyfa gömlu óumbeðnu ráðunum sem þú færð bara að fara inn um annað og út um hitt. Ruglið sem fólk leyfir sér stundum að segja við nýja foreldra!“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert