Upplifði skömm vegna ófrjósemi

Christel Ýr Johan­sen og Daði Erl­ings­son með Mar­on Myrkva.
Christel Ýr Johan­sen og Daði Erl­ings­son með Mar­on Myrkva. Ljósmynd/Aðsend

Christel Ýr Johansen og unnusti hennar Daði Erlingsson eignuðust soninn Maron Myrkva í nóvember. Christel og Daði hafa verið saman frá árinu 2014. Þegar parið ákváð að fara að huga að barneignum eftir tveggja ára samband kom fljótlega í ljós verkefnið yrði ekki endilega auðvelt.

Christel segir að hún hafi haft það á tilfinningunni frá því hún var ung að það gæti orðið erfitt að eignast barn. Hún ákvað því snemma að vera ekki á getnaðarvörn þar sem hún segir þær geta unnið á móti konum seinna meir.

„Það var ekki fyrr en við vorum búin að vera saman í tvö ár sem við fórum að tala eitthvað almennilega um þetta og þá hitti ég kvensjúkdóma- og frjósemislækni. Hann sagði við mig að „undir eðlilegum“ kringumstæðum yrðu pör sem stunda reglulega kynlíf án getnaðarvarna ólétt í minnsta lagi einu sinni til tvisvar á ári.“

Í ljósi þess að Christel hefði ekki verið á getnaðarvörn var hún sett á hormónalyf. Einnig kom í ljós að Christel væri með vanvirkan skjaldkirtil svo hún fór á lyf við því. Christel var á hormónalyfjum í heilt ár en ekkert gekk.

Christel varð ólétt að lokum.
Christel varð ólétt að lokum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég gleymi því aldrei þegar ég fór og hitti lækninn minn. Daði var að vinna erlendis svo ég var ein og í þeim tíma fékk ég að að heyra þau orð að það yrði aldrei auðvelt fyrir okkur að eignast börn. Ég labbaði út í bíl og á sama tíma hringir mamma. Hún vissi ekki að ég hefði verið hjá lækninum en ég svaraði henni og grét og grét og bað hana að segja engum frá þessu því ég upplifði mig sem „gallaða“,“ segir Christel.

Christel og Daði lögðu þó ekki árar í bát þegar hormónalyfin hjálpuðu ekki. Læknirinn þeirra sendi þau áfram til Livio á Íslandi sem sér um tæknifrjóvganir. Eftir sex mánaða bið fengu þau loksins viðtalstíma.   

„Í viðtalinu var ákveðið að við myndum fara í glasafrjóvgun sem var einnig ákveðinn skellur því ég bjóst ekki við því að það þyrfti að senda okkur í svona ítarlega meðferð,“ segir Christel.    

Meðferðin tók á andlega og líkamlega

 „Við byrjum meðferðina í október. Ég byrja að sprauta mig með hormónalyfjum einu sinni á dag sem svo fer upp í tvisvar sinnum á dag. Ég fer í skoðun til að athuga hvort einhver eggbú hafi myndast en ekki nóg svo skammturinn var hækkaður í nokkra daga og endurtók það sig í næstu skoðun líka svo bætt var við dögum. Þetta tók rosalega á andlega og líkamlega og myndi ég segja að tímabilið á lyfjunum hafi verið það allra erfiðasta ásamt biðinni. Biðinni eftir hverri skoðun, hverju egglosi, að mega taka þungunarpróf og eftir staðfestingu í sex vikna sónar.

Christel og Daði fyrir eggheimtu.
Christel og Daði fyrir eggheimtu. Ljósmynd/Aðsend

Ég var mjög stressuð fyrir eggheimtunni sjálfri þar sem ég hafði ekki rekist á neinar jákvæðar reynslusögur um það á netinu. Ég vil taka það fram að eggheimtan gekk vel hjá okkur og ég fann ekki mikið til. Það þarf stundum að passa að deila jákvæðu sögunum líka. Í eggheimtunni hjá okkur kom í ljós að ekki myndi nægja að gera glasafrjóvgun heldur þyrfti að gera smásjárfrjóvgun. Það náðust 22 egg úr 27 eggbúum og eftir frjóvgun voru sex sem urðu að blöstum sem við eigum nú til í frysti.

Vegna hættu á oförvun hjá mér var ákveðið að bíða með að setja upp „blasta“ þar til í mánuðinum á eftir. Það gekk hins vegar ekki þar sem ekki kom egglos næstu þrjá mánuði. Þá var ákveðið að ég myndi byrja aftur á sprautunum til að koma egglosi af stað. Ég var þá á sprautunum í nokkra daga og loks kom egglos og ákveðið var að gera uppsetningu,“ segir Christel um ferlið hjá Livio. 

„Uppsetningin gekk vel og okkur var sagt að næst væri að taka þungunarpróf eftir 12 daga. Ég er ekki svo þolinmóð. Ég fór í apótek og keypti allar tegundir af þungunarprófum og byrjaði á degi þrjú. Ég hafði lesið á netinu að einhverjar hefðu fengið línur á degi fimm svo ég var mjög vonsvikin þegar ekki kom lína á degi fimm hjá mér. Eftir vinnu fer ég svo heim og fyrir tilviljun kíki ég aftur á prófið og sé þá svaka ljósa línu sem varla sást nema með vasaljósi. Ég var ekki viss hvort það hefði lekið til við að standa svona lengi eða hvort þetta væri í alvöru lína. Nema svo með hverjum degi dökknaði hún og ég var alltaf jafnánægð en samt þorði ég ekki að leyfa mér að vera of ánægð því ég var svo viss að þetta myndi ekki ganga því í ferlinu hefðum við lent á svo mörgum þröskuldum. Við förum svo í sex vikna sónar fjórum dögum áður en við fluttum til Tenerife og kom í ljós að litla kraftaverkið okkar var orðið að veruleika.“

Christel tók mörg óléttupróf. Dagur fimm og sex eftir uppsetningu.
Christel tók mörg óléttupróf. Dagur fimm og sex eftir uppsetningu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var svo að fá barnið í fangið eftir þetta langa og stranga ferli?

„Ég á ekki til nógu sterk lýsingarorð yfir það þegar við fengum hann í fangið í fyrsta sinn. Ég gleymi þeirri tilfinningu aldrei. Í dag eru liðnar níu vikur síðan Maron Myrkvi kom í heiminn. Hann stækkar á methraða og það er yndislegt að fá að fylgjast með honum læra á allt í umhverfinu með hverjum deginum sem líður. Maður er líka stoltur af öllum litlu hlutunum og hrósar honum fyrir hvert rop og prump.“

Nýbakaðir foreldrar.
Nýbakaðir foreldrar. Ljósmynd/Aðsend

Verkefni sem þurfti að leysa

Christel segir að hún hafi alltaf haldið í trúna og náð að samgleðjast fólki í kringum sig sem átti von á barni.

„Ég var alltaf ánægð fyrir þeirra hönd. Það truflaði mig ekki þar sem ég leit á þetta þannig að við myndum líka upplifa þetta einn daginn. Við þyrftum bara að fara lengri leiðina,“ segir Christel.

Sterkt og gott samband þeirra Christelar og Daða kom vel í ljós í ferlinu. 

„Við litum á þetta sem verkefni, verkefni sem við þyrftum bara að klára. Vera til staðar fyrir hvort annað og passa upp á hvort annað því þetta tekur á andlegu hliðina. Ég er heppin að eiga mann sem er kletturinn minn í einu og öllu og öll verkefni sem við tökum okkur fyrir hendur gera okkur enn sterkari.

Christel og Daði með sónarmyndir úr 12 vikna sónar.
Christel og Daði með sónarmyndir úr 12 vikna sónar. Ljósmynd/Aðsend

Ófrjósemi er ekki tabú

Christel talar opinskátt um ferlið þeirra. Hún segir þó að það hafi ekki alltaf verið þannig. Þau byrjuðu aðeins á að segja móður hennar frá fyrir tilviljun eins og hún sagði frá hér að ofan. Í fyrstu skammaðist Christel sín fyrir vandamál þeirra.

„Mér fannst þetta vera skömm. Að ég gæti ekki orðið ófrísk eins og allar aðrar konur. Í um hálft ár sagði ég ekkert fyrr en ég fór svo að opna mig um þetta við mína nánustu,“ segir Christel sem komst svo að því að það er langt frá því að allar aðrar konur geti gengið með barn án þess að fá aðstoð.

Að lokum fór Christel að svara fyrir sig þegar hún fékk spurningar á borð við: „Ætli þið ekki að fara að henda í eitt?“ Segist hún hafa svarað slíkum spurningum með að það væri alls ekki svo auðvelt fyrir þau að „henda“ í eitt og viðurkenndi að þau þyrftu hjálp.

„Það kom mér á óvart hvað margir tóku undir að hafa einnig þurft hjálp eða einhver nákominn þeim. Með tímanum komst ég að því hvað þetta er algengt og fékk svo að vita að eitt af hverjum þremur pörum á Íslandi þarf á einhvers konar hjálp að halda.“

Christel segir Daða vera klettinn í lífi sínu.
Christel segir Daða vera klettinn í lífi sínu. Ljósmynd/Aðsend

Christel hefur gefið fylgjendum sínum á Instagram góða innsýn í allt ferlið. Hún segir mikilvægt að fólk upplifi sig ekki sem gallaðar manneskjur eins og hún gerði í upphafi. Christel hefur fengið fjölmargar þakkir fyrir að opna umræðuna. Marg­ar kon­ur með sömu sögu að segja og Christel hafa haft samband við hana og talað um feluleikinn í kringum ófrjósemi.

„Erfiðasta samtalið sem ég fékk var frá einni af mínum bestu vinkonum. Hún hringdi grátandi í mig og þakkaði mér fyrir. Hún sagði mér að hún væri búin að vera í sömu stöðu en hefði ekki þorað að segja neinum frá því. Þá fannst mér hreinlega sárt hvað það virðast vera margir sem upplifa þetta sem skömm.“

View this post on Instagram

Hjartað mitt springur af ást ♡

A post shared by Cʜʀɪsᴛᴇʟ Jᴏʜᴀɴsᴇɴ (@christelyr) on Dec 1, 2019 at 8:13am PST

Christel leggur áherslu á í lokin að það eigi enginn að skammast sín fyrir að ganga í gegnum þetta ferli. Hún segir þörf á umræðu svo fólk upplifi ekki skömm. Hún bendir fólki einnig á að vera varkárt með þær spurningar sem það spyr fólk. „Það er alls ekki sjálfgefið að eiga börn, sumir fá hjálp með árangri, aðrir án árangurs og svo eru pör sem vilja ekki eignast börn.“

mbl.is