Feður vilja líka ræða sínar fæðingarsögur

Hér er Ísak Hilmarsson ásamt dóttur sinni.
Hér er Ísak Hilmarsson ásamt dóttur sinni.

Ísak Hilmarsson, stærðfræðingur og tölvunarfræðingur, starfar sem verkefnastjóri hjá Five Degrees. Hann er í sambúð með Grétu Maríu Birgisdóttur ljósmóður. Saman eiga þau eina dóttur sem fæddist 2017 og hyggjast þau eignast fleiri börn í framtíðinni. Ísak er þessa dagana að safna fæðingarsögum feðra ásamt sambýliskonu sinni. Þeim finnst feðurnir oft gleymast þegar kemur að fæðingum.  

„Verkefnið gengur út á að fá feður til að ræða um fæðingarsögur sínar og koma þeim á blað. Við söfnum sögunum saman og stefnum að því að gefa þær út í bók. Hugmyndin kviknaði síðasta sumar en við Gréta höfum margoft rætt fæðingar og hlutverk og þátttöku feðra í fæðingarferlinu og þá sérstaklega við fólk í okkar nærumhverfi. Það kemur ósjaldan fyrir þegar við hittum fólk að það kemur einhver og ræðir sína upplifun af fæðingum og ferlinu við Grétu og það er í raun kannski kveikjan að þessu. Það eru ekkert síður feður en mæður sem vilja ræða sína upplifun. Við töldum að það gæti verið sniðugt að opna á þessa umræðu og gefa þessum sögum feðra rými í samfélaginu. Þegar við fórum svo að ræða þessa hugmynd við fjölskyldu og vini sáum við fljótt að það virðist vera mikil þörf á að ræða þetta málefni. Oft hefur fólk ekki rætt fæðinguna sjálfa sín á milli og hvernig báðir aðilar upplifðu ferlið. Við áttuðum okkur á því að margir halda að í þeim tilvikum þar sem faðirinn er viðstaddur að þá upplifi báðir aðilar fæðinguna eins. En það er í raun langt frá því að vera svo. Þar sem hlutverkin í fæðingunni eru ólík upplifum við hlutina mjög mismunandi og tilfinningar geta verið mjög ólíkar og komið á ólíkum augnablikum,“ segir Ísak. 

10. nóvember á síðasta ári byrjuðu þau Ísak og Gréta með Facebook-síðuna Fæðingarsögur feðra. Á síðunni halda þau utan um verkefnið og hafa fengið frábærar viðtökur og fengið sögur sendar úr öllum áttum. 

„Við ætlum að halda áfram að safna sögum frá feðrum og vekja athygli á verkefninu. Við hvetjum alla feður, unga sem aldna, til að setjast niður með sínum nánustu og ræða um fæðingarupplifanir sínar. Við óskum eftir að þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu setjist niður og skrifi sína sögu og sendi okkur hana. Við stefnum svo á að gefa sögurnar nafnlausar út í bók til þess að varðveita þessar frásagnir og gera þær aðgengilegar fyrir fleiri. Við hverja sögu kemur fram fæðingarár föður og barns/barna og fæðingarstaður. Það er til þess að gefa lesendum smá tilfinningu um stað og stund fæðingarinnar,“ segir hann. 

Dóttir Ísaks og Grétu er fædd 2017.
Dóttir Ísaks og Grétu er fædd 2017.

Hvernig tilfinning var það að verða pabbi í fyrsta sinn?

„Margir hafa reynt að lýsa þeirri tilfinningu hvernig það er að eignast barn í fyrsta skipti. Það er ekki auðvelt að koma því nægilega vel í orð, tilfinningin er einfaldlega mögnuð í alla staði. Að sjá barnið sitt í fyrsta sinn kallar fram tilfinningu sem er engu lík,“ segir hann. 

Hvernig gekk fæðingin?

„Fæðingin tók frekar langan tíma en hún gekk mjög vel. Við reyndum að vera bæði vel undirbúin fyrir þetta og ég held að það hafi tekist hjá okkur báðum. Það er í raun erfitt að lýsa því hversu magnaður mannslíkaminn er þegar kemur að því að fæða barn í heiminn. Þar sem Gréta er ljósmóðir þekkti hún ferlið út í gegn en ég lærði nýja hluti alla meðgönguna og sér í lagi þegar kom að fæðingunni,“ segir hann og bætir við: 

„Upplifunin var í einu orði sagt yndisleg. Ég kom sjálfum mér á óvart í fæðingunni þar sem ég hef ekki verið sérlega hrifinn af spítalaumhverfi í gegnum tíðina. Þegar ég klippti á naflastrenginn fannst mér eins og ég hefði gert þetta oft áður. Ég áttaði mig líka fljótt á því eftir fæðinguna að þetta væri ferli sem ég hefði áhuga á að taka þátt í aftur.“

Hvernig var að vera faðir í fæðingarorlofi?

„Þegar dóttir okkar fæddist vorum við þrjú saman fyrstu tvo mánuðina. Mér fannst það mjög mikilvægur tími og ég hefði ekki viljað hafa þennan tíma styttri. Ég reyndi náttúrulega að aðstoða þær mæðgur eins og ég gat en það er stundum erfitt að vera pabbi á fyrstu vikunum þar sem manni finnst maður ekki geta gert mikið fyrir barnið. En mér fannst þetta yndislegur tími til að kynnast þessari nýju manneskju í okkar lífi. Við vorum þá mikið þrjú saman og það var ómetanlegt að kynnast sem fjölskylda á þessum tíma. Ég hvet alla feður sem hafa tök á að taka fæðingarorlof að gera það og nýta þann rétt sem þeir hafa. Nú er verið að lengja fæðingarorlofið og mér finnst það meiri háttar og í raun nauðsynlegt.“

Hver eru áhugamál þín fyrir utan fæðingarsögur feðra?

„Ég hef áhuga á umhverfismálum og fylgist vel með því sem er að gerast á þeim vettvangi. Ég nýt þess að verja tíma með fjölskyldunni og vinum. Eins hef ég mikinn áhuga á íþróttum og mér finnst gaman að fylgjast með mismunandi íþróttagreinum,“ segir hann. 

Þeir sem vilja taka þátt í Fæðingarsögum feðra geta haft samband í gegnum Facebook-síðu þeirra eða sent póst á netfangið:  faedingarsogurfedra@gmail.com

mbl.is