Eyða 12,5 milljónum í tveggja ára afmælið

Það verður farið alla leið í tveggja ára afmælinu.
Það verður farið alla leið í tveggja ára afmælinu. AFP

Viðskiptakonan Kylie Jenner og rapparinn Travis Scott spara ekkert til þegar kemur að afmæli dóttur þeirra Stormi. Sú stutta verður tveggja ára á laugardaginn kemur og herma fréttir að þau hafi eytt um það bil 100 þúsund bandaríkjadölum í herlegheitin eða um 12,5 milljónum íslenskra króna.

Það var öllu tjaldað til fyrir fyrstu afmælisveislu einkadótturinnar í fyrra og létu foreldrarnir hanna hringekju fyrir afmælið. Þemað í fyrra var Stormiworld, sem er skírskotun í plötu Scotts, Astroworld. 

Jenner og Scott hafa samkvæmt heimildum TMZ leigt stúdíó til að halda afmælið í og eru í óðaönn að innrétta það. Þau eru nú þegar búin að fara saman með Stormi í Disney World fyrir afmælið.

Snyrtivörufyrirtæki Jenner, Kylie Cosmetics, gefur svo út annað árið í röð, snyrtivörulínuna STORMI á afmælisdag litlu stúlkunnar. Þemað í ár eru fiðrildi og blóm sem gæti einnig átt við þemað í afmælisveislunni.

mbl.is