Rúrik safnaði 1,6 milljónum fyrir SOS-barnaþorpin

Alls söfnuðust 1,6 milljónir fyrir SOS-barnaþorpin.
Alls söfnuðust 1,6 milljónir fyrir SOS-barnaþorpin. Ljósmynd/Aðsend

Ágóði af sölu SOS-bolsins var afhentur nýverið fulltrúum SOS-barnaþorpanna, samtals 1,6 milljónir króna. Bolurinn var hannaður af 66°Norður í samstarfi við Rúrik Gíslason, velgjörðarsendiherra SOS-barnaþorpanna. Bolurinn var seldur í verslunum 66° Norður í desembermánuði síðastliðnum.

„Það var ánægjulegt að geta lagt eitthvað af mörkum og frábært að bolurinn seldist upp hratt. Það var virkilega gefandi að taka þátt í þessu verkefni og sjá hugmyndina verða að veruleika og nú erum við að uppskera afrakstur þess. Það var skemmtilegt að vinna með hönnuðum 66°Norður og taka þátt í framleiðsluferlinu, ég lærði heilmargt á þessu. Það er víst að þessi fjárhæð mun koma sér vel í góðgerðarstarfi samtakanna en SOS-barnaþorpin starfa í 136 löndum og veita munaðarlausum og yfirgefnum börnum staðgengil fyrir þá fjölskyldu sem þau hafa misst,“ segir Rúrik Gíslason.

„Það var virkilega skemmtilegt að taka þátt í þessu verkefni með Rúrik og fullrúum SOS-barnaþorpanna. Markmiðið okkar var að framleiða vandaða vöru og gefa Íslendingum tækifæri á að styrkja gott málefni um leið. Við fengum einnig tækifæri að kynnast þeirra góða starfi í þágu ríflega milljón barna,“ segir Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri 66°Norður.

„Samstarfið við Rúrik og 66°Norður var til fyrirmyndar í alla staði. Ánægjulegt að salan á bolnum gekk svona vel. Það er jafnframt gott að vita af fjölda Íslendinga klæðast þessum góða bol. Afraksturinn af sölu hans mun sannarlega koma að góðum notum til stuðnings fyrir munaðarlaus og yfirgefin börn í SOS-barnaþorpum víða um heim,“ segir Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS-barnaþorpanna á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert