Hulda Björk: Hver grípur mig?

Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með …
Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn.

„Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að hér á Íslandi byggjum við við frábært heilbrigðiskerfi og þar væri nú allt í lagi. Vissulega starfar frábært og yndislegt fólk í heilbrigðiskerfinu sem vill hjálpa og gera vel. Mín upplifun var hins vegar þannig því miður að það vantaði einhvern til að grípa mig, það vantaði utanumhaldið,“ segir Hulda Björk Svansdóttir móðir Ægis Þórs, sem er með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóm, í sínum nýjasta pistli: 

Þetta var svo ruglingslegt og út um allt eitthvað. Mig vantaði skýrari upplýsingar og best hefði verið  að fá einhvern til að leiða mig á einn stað til að fá þessar upplýsingar en ekki fá þetta yfirþyrmandi upplýsingaflæði sem ég átti að finna út um allt. 

Mér var sagt að ég gæti t.d. fengið ráðgjöf hjá Greiningarstöðinni, Landspítalanum, Einstökum börnum sem eru reyndar svo einstök að þau neituðu Ægi mínum inngöngu svo ég þurfti reyndar ekki að hafa áhyggjur af því að tala við þá, Umhyggju, Sjónarhóli, Leiðarljósi svo einhverjir séu nefndir.

Eftir stóð ég og hringsnerist og hafði ekki hugmynd um hvern væri best að tala við. Það vantar ekki úrræðin svo sem en málið er að það þarf að sameina þau. Mér finnst frábær hugmynd sem góðvinur minn og snillingurinn hann Sigurður Jóhannesson hjá AHC-samtökunum kom með að búa til miðstöð fyrir sjaldgæfa sjúkdóma á Íslandi.

Þangað gætu foreldrar leitað og fengið allar upplýsingar á einum stað, þar væri öll þjónusta svo foreldrar barna með sjaldgæfa sjúkdóma þurfi ekki að fara á marga staði með barnið sitt til skoðunar t.d. Þessi miðstöð ætti að vera á Landspítalanum og greiningarstöðin ætti að starfa náið slíkri miðstöð því eins og er er lítil sem engin samvinna á milli hennar og Landspítalans sem er stórfurðulegt.

Það er ekki nóg að stofna einn eina nefndina, enn eitt teymið sem skilar svo engu í raun og veru til fjölskyldna þessara barna, við þurfum alvöru framkvæmdir og skipulag. Hananú þá kom ég þessu frá mér svo er bara að finna fólkið sem kemur þessu í framkvæmd og óska ég hér með eftir því að þingmenn, ráðherrar, forstjóri Landspítalans, Landlæknir og allir þeir er málið varðar taki nú við sér og fari í það að koma málefnum sjaldgæfra sjúkdóma í lag á Íslandi. Áfram þið, ég hef trú á ykkur. Máli mínu til stuðnings hef ég samið ljóð til ráðamanna sem vonandi hvetur þá til dáða. 

Er komst ég í kynni við heilbrigðiskerfið

Fljótlega sá að staðan var erfið

Eins og allt væri af skornum skammti

Um sjaldgæfa sjúkdóma utanhald vanti

 

Foreldrar langveikra barna það finna

Að sinna barnanna þörfum er vinna

Hvern dag þurfa að berjast og leita síns réttar

Sumir segja sínar farir ei sléttar

 

Margt mætti færa til betri vegar

Vona að ástandið batni nú þegar

Ótækt með öllu að foreldrar sinni

Verkum þessum nú er mál að linni

 

Svo miklu betur er hægt að gera

Svona eiga aðstæður ekki að vera

Hvet ég ykkur úr þessu að bæta

Þörfum okkar fara að mæta

 

Í okkar landi ættu allir að hljóta

allt það besta, fá lífsins að njóta

Þið sem sitjið á Alþingi háu

Gleymið ei að sinna þeim smáu

Hulda Björk ´20

 

Ást og kærleikur til ykkar allra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert