Fannst betra að hjóla eftir fæðingu

Erla Sigurlaug segir hjólreiðar henta nýbökuðum mæðrum.
Erla Sigurlaug segir hjólreiðar henta nýbökuðum mæðrum. Ljósmynd/Aðsend

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir leiddist óvart út í að æfa hjólreiðar af kappi fyrir fimm árum. Nú rekur hún Hjólaskólann ásamt Þóru Katrínu Gunnarsdóttur. Ásamt því að bjóða upp á námskeið fyrir börn, unglinga og fullorðna standa þær Erla og Þóra fyrir mömmuhjólanámskeiði sem hefst í Reebok Fitness Holtagörðum fimmtudaginn 13. febrúar. Þegar Erla var sjálf í fæðingarorlofi með sín börn fannst henni gott að komast út úr húsi og hitta mæður í sömu stöðu.

„Ég hef hjólað alla mina tíð, hvort sem það er til vinnu eða í skóla en byrjaði að æfa markvisst og keppa bæði í götu- og fjallahjólreiðum fyrir fimm árum. Þetta byrjaði allt með Cyclothoninu. Ég var að æfa crossfit og crossfit-stöðin og vinir mínir ákváðu að búa til lið sem ég endaði svo með að vera í þegar einn þeirra rifbeinsbrotnaði helgina áður en cyclothonið fór af stað. Ég fékk lánað hjól og var líka í allt of stórum lánshjólaskóm nr. 45. Að hjóla þennan hring með liðinu er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Svo leiddi eitt af öðru og tveimur árum síðar var ég orðin Íslands- og bikarmeistari í bæði götu- og fjallahjólreiðum ásamt því sem ég get státað mig af því að hafa unnið fyrstu alþjóðlegu verðlaun Íslands í hjólreiðum, en ég komst á pall á Smáþjóðaleikunum 2017 bæði í götu- og fjallahjólreiðum,“ segir Erla um hjólaástríðuna. 

„Að hjóla er frelsið mitt, að hjóla er leikurinn og lífið! Fyrir utan hvað það er góð alhliða líkamsrækt og fer vel með líkamann. Engin högg á grindina og liði, bara mjúkar hreyfingar sem gefa sterka fætur, gott þol og sterkan maga og bak.“

Erla segir hjólreiðar fara vel með líkamann.
Erla segir hjólreiðar fara vel með líkamann. Ljósmynd/Aðsend

Á námskeiði Erlu og Þóru eru ungbörnin boðin velkomin með.

„Okkur langar að koma til móts við mæður og krílin þeirra, að bjóða upp á líkamsræktarkost sem er í senn þægilegur fyrir mömmuna og barnið. Að hjóla sig í form eftir barnsburð er frábær aðferð. Hjólreiðarnar koma manni frekar fljótt í form og það eru engin högg á grindina eða önnur læti. Við tökum á því saman á innihjólum í Reebok og hver hjólar á sínum forsendum en hjólin eru stillt eins og hentar hverri og einni, út frá styrk og hraða. Svo gerum við styrktaræfingar fyrir miðjusvæðið og teygjum vel. Tónlistin er róleg og við miðum að því að mömmurnar geti átt góða stund saman með hver annarri og börnunum auk þess að svitna og taka aðeins á því.“

Er ekkert vont að vera á hjólahnakk eftir að hafa gengið með barn?

„Það er mjög einstaklingsbundið hvenær konur fara aftur að hreyfa sig eftir barnsburð. Sumar eru komnar á fullt tveimur til þremur vikum á eftir líkt og hún Þóra Katrín sem er með mér í Hjólaskólanum á meðan aðrar eru lengur að ná sér. Það er eins með að sitja á hjóli og ólíkt ef kona hefur átt barnið í gegnum fæðingarveginn eða með keisara, en sjálfri fannst mér verra að hlaupa og hamast heldur en stunda mjúkar hjólreiðar eftir mín börn. En það er hægt að vera með sérstakan gelhnakk á hjólunum auk þess að vera í hjólabuxum með púða, en það er þó alls ekki nauðsynlegt.“

Erla hjólar með börnunum sínum.
Erla hjólar með börnunum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Erla á tvö börn og eitt skábarn. Þegar hún var í fæðingarorlofi fannst henni gott að fara út af heimilinu og hitta aðrar mæður.

„Ég hef alltaf verið dugleg að hreyfa mig og eftir barnsburð fannst mér sérlega gott að hitta aðrar mæður á námskeiðum sem ég sótti og ræða málin og dúllast með krílin. Þegar maður er í fæðingarorlofi er líka svo gott að komast út af heimilinu og hitta annað fólk í sömu stöðu. Og hvað þá að finna sig komast í form, það er frábær tilfinning sem gleður og gerir okkur að hressari og betri mömmum! Og svo fór ég auðvitað út að hjóla um leið og ég gat með krílin.“

mbl.is