Vildi að hún hefði vitað meira um foreldrahlutverkið

Breska leikkonan Emma Thompson.
Breska leikkonan Emma Thompson. AFP

Leikkonan Emma Thompson segir að hún vildi að hún hefði vitað meira um foreldrahlutverkið áður en hún varð móðir. Thompson var 39 ára þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn, Gaiu. 

„Ég varð foreldri fyrir næstum tveimur áratugum. Hvað vildi ég óska að ég vissi þá? Hvað sem er. Að vera foreldri er að vera stöðugt með samviskubit og allir halda að þeir séu skelfilegir foreldrar. Ég var fávís og lærði hlutina á eigin spýtur,“ segir Thompson í pistli sínum í tímaritinu Red

Thompson á tvö börn með eiginmanni sínum Greg Wise. Gaiu eignuðust þau í gegnum tæknifrjóvgun og son sinn Tindyebwa Agaba ættleiddu þau þegar hann var 17 ára.

„Við vorum „alveg nógu góðir“ foreldrar en ég vildi óska að ég hefði vitað meira um heilaþroska barna og unglinga. Nágrannar okkar eignuðust dóttur tveimur árum á undan okkur og að sjá hana þroskast hjálpaði okkur þegar dóttir okkar fæddist,“ segir Thompson.

Hún segir að það geti einnig verið hjálplegt að skoða hvað manns eigin foreldrar gerðu rétt og rangt í uppeldinu og reyna að endurtaka ekki mistök þeirra. „Þegar upp er staðið er vænlegt að ala upp börn við stöðugleika og rólegheit, ég held samt að ég hafi hvorki verið stöðugt róleg eða rólega stöðug,“ segir Thompson og bætir við að ef foreldrar geti fylgst með börnum sínum án þess að dæma sé það gott svo börnum finnist þau séð og elskuð en ekki skilgreind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert