Sonur Dwayne Wade nú dóttir hans

Dwayne Wade og dóttir hans Zaya.
Dwayne Wade og dóttir hans Zaya. Skjáskot/Instagram

Körfuboltastjarnan Dwayne Wade greindi frá því í viðtali að 12 ára barn hans skilgreini sig nú sem stelpu og vill nota fornöfnin hún/hennar. Hún hefur einnig beðið pabba sinn og stjúpmömmu að kalla sig Zaya. 

Skírnarnafn Zayu er Zion. „Zion, sem fæddist drengur, kom heim og sagði „Hey, sko, ég vil tala við ykkur. Ég held að ég sé tilbúin til að lifa í sannleikanum í framtíðinni. Ég vil að þið notið persónufornöfnin hún og hennar. Og ég myndi elska það ef þið kölluðuð mig Zaya“,“ sagði Wade í viðtali hjá Ellen DeGeneres í gær. 

Wade ræddi um hvernig hann styður við bakið á Zayu og LGBTQ+ samfélagið í kraftmiklu viðtali við DeGeneres. Hann segir að hann og eiginkona hans, Gabrielle Union, gætu ekki verið stoltari af henni. 

„Við tökum hlutverkum okkar sem foreldrar og ábyrgðinni sem því fylgir mjög alvarlega. Þegar barnið okkar kemur heim með spurningu er það hlutverk okkar sem foreldrar að hlusta og reyna að gefa því bestu upplýsingarnar sem við getum fengið, besta svarið sem við getum og það breytist ekki núna þegar kyn og kynhneigð er í spilinu,“ segir Wade. 

Wade hefur talað mikið um Zayu síðustu mánuði en það var ekki fyrr en núna að hann staðfesti að hún vildi nota fornöfnin hún/hennar og láta kalla sig Zayu. mbl.is