Eignuðust 10 börn á 10 árum

Cassanda og Jacob eiga 10 börn, 10 ára og yngri.
Cassanda og Jacob eiga 10 börn, 10 ára og yngri. skjáskot/Instagram

Cassanda og Jacob Morrise frá Utah í Bandaríkjunum eignuðust 10 börn á 10 árum. Þau segja að fólk hafi gagnrýnt þau og sagt þau óábyrg að eignast svona mörg börn. 

Morrise hjónin eiga Steven 10 ára, Christopher 9 ára, eineggja tvíburana William og Ryan 7 ára, tvíeggja tvíburana Spencer og Max 5 ára, Thomas 4 ára, Henry 3 ára, Lily 1 árs og Peter 6 mánaða.

Þau segja að ókunnugt fólk gagnrýni þau oft en þau láta það sem vind um eyru þjóta að sögn Jacob. „Í lok dags erum við bara venjulegir foreldrar sem eiga 10 börn. Já staðreyndin að við eigum 10 börn gerir okkur kannski ekki jafn venjuleg, en við elskum þau öll eins,“ segir Jacob í viðtali við The Sun

Cassanda er heimavinnandi móðir og þarf að hafa sig alla við til að hafa það af hvern dag. „Þegar kemur að matmálstímum er ég mjög skipulögð og geri plan mánuð fram í tímann, svo allir vita hvað þeir fá,“ segir Cassanda og bætir við að börnin séru ekki með neitt ofnæmi né matvönd.

Eldri börnin sjö eru öll með sín verkefni á heimilinu og eiga að laga til í herbergjum sínum. Þau fá aðeins 10 mínútur á dag til þess, enda þurfa þau bara að laga til og þurrka af. 

Cassanda segir að börnin sín séu mjög vel upp alin. „Fólk heldur að við eigum bara helling af óþekkum börnum sem ganga berserksgang um húsið, af því þau eru svo mörg. En það er ekki svo í okkar tilfelli,“ segir Cassanda. Hún heldur úti bloggsíðu þar sem hún deilir ráðum fyrir foreldra.

Þrátt fyrir að eiga tíu börn segja Morrise hjónin að þau hafi upphaflega bara ætla að eignast tvö börn. „Steven var gott barn, en Christopher var svo slæmur að hann var ansi góð getnaðarvörn fyrir hvern sem er,“ segir Jacob og bætir við að Christopher litli hafi grátið hátt og mikið. 

Þegar Christopher var orðinn nokkurra ára gamall ákváðu hjónin hinsvegar að það gæti verið góð hugmynd að eignast fleiri börn. Þau eru í mormónakirkjunni sem leyfir getnaðarvarnir en styður hugmyndina um stórar fjölskyldur. 

Þau segja að þau séu ánægð með ákvörðun sína að halda áfram að stækka fjölskylduna. Cassanda segir að það sé gott fyrir börnin að alast upp í svo stórum hópi og að kannski séu þau betur siðuð fyrir vikið. 

„Ég tala við fólk sem á eitt eða tvö börn og þau segjast þurfa að hafa ofan af fyrir börnum sínum allar stundir. En ég þarf þess ekki. Við eigum svo mörg börn að þau hafa ofan af fyrir hvert öðru og leika sér saman. Við erum líka mjög heppin því eldri börnin elska litlu börnin,“ segir Cassanda.

Cassanda og börnin 10.
Cassanda og börnin 10. Skjáskot/Instagram
mbl.is