„Þakklát fyrir að fá að vera mamma“

Edda Ólafsdóttir með dætrum sínum.
Edda Ólafsdóttir með dætrum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Edda Ólafsdóttir er gift Rúnari Helgasyni og á með honum tvær dætur, þær Nadíu Rós níu ára og Söru Dís sem er tveggja og hálfs árs. Edda nýtti nöfn dætra sinna þegar hún stofnaði netverslunina Nadíu og Söru. 

Hvernig breytti móðurhlutverkið þér?

„Hjartað mitt stækkaði um nokkur númer. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að fá að vera mamma, það er ekki sjálfgefið, klárlega skemmtilegasta, mest gefandi og frábærasta hlutverk sem ég hef fengið,“ segir Edda. 

Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefðir þú viljað vita áður en þú varðst móðir?

„Tíminn líður mikið hraðar og hver vissi að 10 mínútna sturta yrði svona mikill lúxus?“

Kom eitthvað á óvart við móðurhlutverkið?

„Að maður gæti elskað svona mikið, það er ekkert sem ég myndi ekki gera fyrir þær.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig móðir vilt þú vera?

„Sterk og góð fyrirmynd, hvetjandi og kærleiksrík. Ég vil sýna stelpunum mínum að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi og enginn draumur er of stór.“

Finnur þú fyrir pressu frá samfélagsmiðlum að gera hlutina á ákveðinn hátt?

„Nei ég get ekki sagt það, hef alltaf farið mínar eigin leiðir í öllu og einbeiti mér bara að því sem ég er að gera. Mín vinna fer mikið fram í gegnum samfélagsmiðla og mér finnst margt jákvætt við þá en þetta er auðvitað mikill tímaþjófur.“

Ljósmynd/Aðsend

Nýttir þú þér bumbuhópa eða mömmuklúbba?

„Já ég var í bumbuhópi á Facebook og svo var systir mín ólétt á sama tíma og ég í bæði skiptin, það var ómetanlegt að hafa fengið að vera samferða henni enda mjög samrýndar systur.“

Hvernig voru meðgöngurnar?

„Fyrsta meðgangan gekk æðislega vel, lítil ógleði, mataræðið upp á tíu og ég mætti í ræktina alla daga. Já, alveg þessi súperhressa týpa. Seinni meðgangan var ekki eins auðveld, mikil ógleði, bjúgur og járnskortur.“ 

Hvernig voru fæðingarnar?

„Þær voru jafn ólíkar og meðgöngurnar tvær. Fyrri var hrikalega löng og erfið, dóttir mín lenti í axlarklemmu, viðbeinsbrotnaði og þurfti að vera á vökudeildinni í viku eftir fæðingu. Við vorum svo með hana í sjúkraþjálfun í sex mánuði til að laga öxlina. Ég ætlaði aldrei að eignast annað barn eftir þessa lífsreynslu, Það tók mig langan tíma að jafna mig en ég er ótrúlega þakklát í dag fyrir að hafa komist yfir þetta og fengið kjark til að reyna aftur. Ég fór í keisara núna í seinna skiptið og það gekk allt eins og í sögu, alveg mögnuð upplifun.“

Ljósmynd/Aðsend

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Njóta augnabliksins og lifa í núinu. Hin fullkomna mamma er ekki til við erum öll mannleg og gerum mistök, reynum bara okkar besta og sýnum barninu ást og umhyggju. Það skiptir mestu máli.“

mbl.is