„Hann er og verður mitt eina gullegg“

Mæðginin Þóra Margrét og Ísleifur Narfi.
Mæðginin Þóra Margrét og Ísleifur Narfi. ljósmynd/aðsend

Fyrir um tveimur og hálfu ári eignuðust þau Þóra Margrét Birgisdóttir og Arnþór Pálsson frumburðinn Ísleif Narfa. Eftir langa og stranga glímu við ófrjósemi fékk Þóra Margrét loksins jákvætt óléttupróf, þá að verða 41 árs. Gulleggið þeirra kom í síðustu tæknifrjóvgunarmeðferð þeirra.

„Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að það gæti verið eitthvað að. Ég glímdi alltaf við ótrúlega sára túrverki og þegar ekkert gerist og þúert  ekki á getnaðarvörnum þá fer þig að gruna að mögulega sé þessi tilfinning rétt,“ segir Þóra Margrét þegar hún er spurð hvenær hún hafi áttað sig á því að það gæti reynst henni erfitt að eignast barn.

Þurfti að fjarlægja eggjaleiðarana

Þóra Margrét leitaði fyrst aðstoðar hjá tæknifrjóvgunarstöðinni Art Medica sem þá var og hét en á þeim tíma taldi hún vanda sinn ekki vera neitt stórmál.

Á Art Medica var ákveðið að ég skyldi fara kviðspeglun og þar kom í ljós að ég var með lokaða eggjaleiðara og glasafrjóvgun yrði mín eina leið til þess að eignast barn. Þetta var stór biti að kyngja og þarna gerði ég mér enga grein fyrir rússíbanaferðinni sem næstu ár yrðu. Í meðferð hjá Art Medica kom í ljós að ég var með blöðru í þvagblöðrunni. Ég var ekkert sérstaklega hvött til þess að láta athuga þetta en ég ákvað að gera eitthvað í málinu. Ég pantaði tíma hjá þvagfæralækni sem vildi strax fjarlægja blöðruna og eftir aðgerð var hann nokkuð viss um að þessi blaðra hefði valdið sýkingum í líkamanum sem hefðu haft áhrif á eggjaleiðarana hjá mér,“ segir Þóra Margrét.

Þóra Margrét segir að á þessum tíma hafi fólk þurft að ganga sjálft í málin. Art Medica var ekki með mjög persónulega þjónustu. Þóra Margrét var heppin þar sem móðir hennar er ljósmóðir og kom hún Þóru Margréti í samband við góðan kvensjúkdómalækni sem vildi taka annan eggjaleiðarann til þess að auka líkur á þungun.

„Hinn var skilinn eftir því hann var ekki eins illa farinn og gæti mögulega virkað. Það kom svo seinna í ljós að hann virkaði ekkert sérstaklega vel þar sem ég fékk utanlegsfóstur og í framhaldinu var eggjaleiðarinn tekinn.“

„Þegar við Arnþór ákváðum að fara af stað í meðferð höfðum við ekki áhuga á að fara á ArtMedica og leituðum því annað. Ég frétti af Facebook-hóp þar sem voru einstaklingar sem höfðu farið eða voru á leiðinni í meðferðir erlendis. Í gegnum þennan hóp fengum við upplýsingar um klínik í Prag. Við settum okkur í samband við klíníkina og í framhaldinu var meðferð skipulögð. Ég var svo viss um að þessi meðferð myndi gefa já en á fertugsafmælisdaginn kom nei og ég var niðurbrotin. Ég var svo viss, þar sem allt kom vel út í meðferðinni og allt var svo vel unnið en nei-ið sem við öll hræðumst kom. Það var engin eftirfylgni frá klíníkinni.“

Arnþór og sonurinn Ísleifur Narfi eru strákarnir í lífi Þóru …
Arnþór og sonurinn Ísleifur Narfi eru strákarnir í lífi Þóru Margrétar. ljósmynd/aðsend

Ákváðu að prófa einu sinni enn

Þóra Margrét ákvað að vinna í sjálfri sér áður en þau Arnþór ákváðu að prófa í eitt skipti í viðbót.

„Eftir frekar mikla niðursveiflu og bugun fór ég að vinna í sjálfri mér. Sem betur fer á ég yndislegan mann og við eigum frábærar fjölskyldur sem stóðu þétt við bakið á okkur.
Ég var alveg sorgmædd í dágóðan tíma og lét allt fara í taugarnar á mér og var orðin ógeðslega reið yfir öllum óléttutilkynningunum og öllum þessum óléttu konum úti um allt, þær voru alls staðar fyrir mér,“ segir Þóra Margrét og segir vinkonur sínar þær Ólöfu Rún og Snæbjörgu einnig hafa hjálpað mikið. Hún segir þær hafa verið tilbúnar að hlusta og dæma ekki fyrir allar þessar tilfinningar. „Þær veittu mér ótrúlegan stuðning á erfiðum tíma. Ég vann mig upp úr niðursveiflunni með þessum frábæru konum. Við hittumst á ógeðisæfingum á morgnana, boxuðum seinni partinn og veittum hver annarri stuðning og styrk í daglegu amstri og gerum enn þann dag í dag.“

Þegar hausinn var kominn í lag fór Þóra Margrét að hugsa um hvort þau Arnþór ættu að prófa einu sinni enn. IVF Klínikin eða LIVIO var þá tekin til starfa á Íslandi og Þóra Margrét hafði heyrt góðar sögur þaðan.

„Það tók mig smá tíma að bera upp hugmyndina við Arnþór hvort við ættum að prófa enn einu sinni og þá yrði þetta okkar síðasta tilraun. Þetta er það stór fjárhagslegur pakki að þú verður á ákveðnum tímapunkti að gera það upp við þig hversu miklu þú ert tilbúinn að eyða og fórna í þetta verkefni.“

Ísleifur Narfi kom í heiminn þann 12. október 2017.
Ísleifur Narfi kom í heiminn þann 12. október 2017. ljósmynd/aðsend

Þóra Margrét fór bjartsýn inn í síðustu meðferðina og var búin að undirbúa sig vel andlega. Þrátt fyrir það var margt taugatrekkjandi í meðferðarferlinu.

„Eins og í hinum meðferðunum þá náðist góður fjöldi eggja en gæði eggja hjá mér hafa aldrei verið mikil og því er þetta tímabil í meðferðinni alltaf frekar kvíðvænlegt hjá mér. Ég fékk þau skilaboð að ég ætti að mæta í uppsetningu eftir fimm daga en í mig yrði hringt ef ég ætti að koma inn fyrr. Þú vilt að fósturvísarnir nái fimm dögum og því var dagur þrjú í biðinni mjög stressandi. Ég gekk um með símann í hendinni og fékk alltaf sting í magann ef hann hringdi. Síminn hringdi ekki þennan dag og mér fannst ég hafa sigrað heiminn. Við mættum svo á LIVIO á fimmta degi og fengum þær fréttir að af öllum eggjunum mínum þá fengjum við einn fimm daga fósturvísi. Í fyrsta skipti fékk ég að heyra að ég ætti góðan fimm daga fósturvísi. Þarna sigraði ég nánast heiminn að minnsta kosti þetta langa og erfiða ferðalag. Næstu tvær vikur hófust eða biðin langa, á þessum tíma reynir þú að lifa þínu lífi en treystu mér þú ert nánast óvinnufær því að þú hugsar um aðeins eitt,  niðurstöðuna sem þú færð eftir tvær vikur. Hver klósettferð verður taugatrekkjandi. Er blóð? Þú lest í allt líkamlegt ástand. Hvaða verkur var þetta? Eru brjóstin á mér aum? Og svo framvegis. Ég náði ekki að halda í mér fram að prófdegi, tók próf tveimur dögum fyrir prófdag og fékk bestu skilaboð í heimi „Pregnant 1-2 weeks“. Ég þorði ekki að brosa, því það voru tveir dagar í prófdag og það getur ýmislegt gerst á tveimur dögum. Prófdagur rann upp og aftur fékk ég bestu skilaboð í heimi. Síðasta meðferðin gekk upp, gulleggið okkar hafði komið sér fyrir og ég, 41 árs, var ólétt að mínu fyrsta barni.

Þóra Margrét segist hafa farið inn í síðustu meðferðina með öðru hugarfari en í hin skiptin. Ásamt því að vinna í andlega þættinum tók hún mataræðið í gegn, borðaði mikið af hreinni og hollri fitu, las sér mikið til um ófrjósemi og glasafrjóvgun, hitti vinkonur sínar og hreyfði sig. Eitt það allra besta sem hún gerði var að hitta Margréti Knútsdóttur ljósmóður.

„Hjá henni tókumst við á við þetta neikvæða sem bjó í mér en um leið kom hún mér í skilning um að ég hefði rétt á öllum þessum tilfinningum. Hún náði svo vel utan um þetta allt og var með einstakan skilning á aðstæðum. Hún lýsti þessu svo vel, við sem erum að glíma við þetta stöndum fyrir utan hóp sem við viljum fá að tilheyra en okkur er ekki hleypt inn,“ segir Þóra Margrét og segist vera mjög þakklát fyrir að hafa hitt Margréti. Hún segir enn þá erfiðara að takast á við meðferðirnar og niðurstöðurnar ef hausinn er ekki í lagi.

Glókollurinn lét bíða eftir sér.
Glókollurinn lét bíða eftir sér. ljósmynd/aðsend

Tekur á andlega

Þóra Margrét segist alltaf hafa verið opin um vandamálið ófrjósemi en því fylgir þó vanlíðan og fjárhagsáhyggjur sem hún talaði minna um. Hún segir fólk almennt ekki vita hvað það eigi að segja.

„Ég þurfti aðstoð við að sættast við þetta, hefði viljað fá hana miklu fyrr en þú þarft að vinna svakalega í þér svo þú sért tilbúinn til þess að takast á við allar óléttutilkynningarnar á samskiptamiðlum, allar þessar óléttu konur sem eru alls staðar fyrir þér, spurningarnar frá vinum og frænkum um hvenær eigi að koma með eitt lítið. Það þarf svakalega sterkan einstakling til þess að standa þetta allt af sér og brotna ekki á einhverjum tímapunkti. Sem betur fer hefur umræðan um ófrjósemi breyst mikið frá því að ég hóf ferðalagið fyrir um 12 árum. Einstaklingar og pör sem eru að glíma við þetta eru tilbúnari að opna umræðuna og leyfa öðrum að fylgjast með meðferðarferðalaginu sínu til dæmis á samskiptamiðlum. Það er talað um að einn af hverjum sex glími við ófrjósemi og því þurfum við að tala varlega.

Ég fór oft langt niður og var stundum á vondum stað. Brotnaði auðveldlega og ýtti stundum frá mér vinum og félögum sérstaklega ef það komu óléttutilkynningar. Ég gat örugglega oft verið mjög erfið í samskiptum og dáist ég að Arnþóri fyrir að hafa þolað mig. Arnþór var algerlega einstakur í þessu ferðalagi okkar, hann var alltaf til staðar, alltaf pollrólegur. Hann leyfði mér svolítið að stýra ferðinni, hvatti mig áfram í því sem mig langaði að prófa og öll vítamínin sem ég setti hann á gleypti hann með bros á vör. Erfiðasti tíminn í öllu þessu ferðalagi var að standa fyrir utan hóp sem þú vildir svo mikið fá að tilheyra. Að vita til þess að það er eitthvað í gangi barnaafmæli, babyshower, saumó og þér er ekki boðið því þú átt ekki barn eða þú ert óþægileg stærð innan hóps. Ég hefði viljað að mér hefði verið boðið að vera með og fengið sjálf að ráða hvort ég myndi mæta eða ekki.“

Ísleifur Narfi.
Ísleifur Narfi. ljósmynd/aðsend

Þóra Margrét hvetur fólk til þess að segja sem minnst og hlusta bara á fólk sem glímir við ófrjósemi.

„Við sem erum í þessari glímu viljum ekki heyra sögur um að systir frænku mágkonu frænda þíns sem fékk sér hund, fór í  sólarlandaferð eða bara hætti að hugsa um barneignir og þá bara kom þetta. Við sem glímum við ófrjósemi erum mörg og hvert tilfelli er ólíkt. Við þurfum allskonar meðferðir og aðstoð. Fyrir mörg okkar er ekki hægt að setjast niður, klappa hundi og hætta að hugsa um þetta. Ég geri mér fulla grein fyrir því að fólk veit mögulega ekki hvað það á að segja og því grípur það í einhverja svona setningu. Mín ráðlegging er að þú þarft endilega ekkert að segja, vertu bara til staðar og hlustaðu.“

Móðir Þóru Margrétar tók á móti ömmubarni sínu

Hvernig var tilfinningin að verða ólétt og fá loksins barnið í fangið?

„Tilfinningin alla meðgönguna var sérstök, ég var himinlifandi, á nálum, alltaf tilbúin að takast á við eitthvað neikvætt og ótrúlega spennt. Mánuðirnir liðu og allt gekk glimrandi vel. Ísleifur Narfi kom svo í heiminn á tilsettum degi 12. október 2017. Mamma mín hún Ágústa ljósmóðir tók á móti honum og var Ísleifur Narfi síðasta barnið sem hún tók á móti eftir 50 ára starfsferil sem ljósmóðir. Að fá gulleggið í fangið var einstakt en um leið svo skrítið, eftir öll þess ár, allt þetta ferðalag þá var komið í fangið hjá mér fallegasta barn í heimi, hraustur með tíu fingur, tíu tær, ljósan lubba og fallegustu augu sem ég hafði séð.

Þrátt fyrir að vera komin með barnið í fangið og allt hefði gengið vel og hann heilsuhraustur þá þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að loka augunum og hvíla mig á meðan hann svaf vært í vöggunni sinni. Ég lá stjörf af þreytu fyrsta sólarhringinn okkar og horfði á hann anda. Ég var ekki enn búin að átta mig á að ferðalagið mitt hefði endað á þessu stórkostlega kraftaverki.

Það eru að verða komin tvö og hálft ár síðan Ísleifur kom í heiminn. Hann er allt það sem ég óskaði mér og miklu meira. Enn þann dag í dag ligg ég horfi á hann þegar hann sefur. Legg höndina á magann á honum og hlusta á andardráttinn. Hann er og verður mitt eina gullegg.“

mbl.is