Annie Mist opnar sig um fyrstu vikurnar

Annie Mist á von á barni.
Annie Mist á von á barni. Ljósmynd/Foodspring

Crossfitstjarnan Annie Mist Þórisdóttir á von á sínu fyrsta barni í sumar með kærasta sínum Frederik Aeg­idius. Hún leyfir aðdáendum sínum að fylgjast vel með meðgöngunni en hún opnaði sig um fyrstu vikurnar í myndbandi sem hún deildi á Youtube. Í myndbandinu segir hún meðal annars ýmsar spurningar vakna á fyrstu vikum meðgöngu. 

Annie greinir meðal annars frá því að hafa verið í New York þegar hún ákvað að taka óléttupróf. Eftir að hún tók prófið hljóp hún grátandi inn í eldhús og fann fyrir alls konar tilfinningum, meðal annars gleði og hræðslu. Foreldrar Annie voru í New York hjá henni og Frederik og gistu í sömu íbúð svo hún gat deilt gleðifréttunum með foreldrum sínum. Hún lét einnig þjálfara sinn vita. 

Annie segir að sér hafi liðið ágætlega en hún fann þó fyrir verkjum vinstra megin í líkama á æfingum þegar hún var komin um sex vikur á leið. Hún fór til læknis þar sem upp komu þær áhyggjur að fóstrið væri ekki á réttum stað. Við skoðun kom í ljós að allt var í lagi. Annars segir Annie að hún hafi haft það nokkuð gott á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar og ekki hafa fundið fyrir mikilli ógleði. Hún viðurkennir þó að finna fyrir löngun í annars konar mat en venjulega. Hún finnur fyrir minni löngun í kjöt og meiri í kolvetni og fitu. 

Íþróttastjarnan nýtir myndbandið meðal annars til þess að tala um hvernig hún æfir og segir að hún æfi ekki til þess að verða betri. Í staðinn reynir hún að viðhalda styrk sínum og segir að æfingar ættu að gera bæði henni og ófæddu barni hennar gott. 

Í spilaranum hér að neðan má horfa á myndbandið í heild sinni en Annie talar ensku í myndbandinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert