Biden í bobba í meðlagsmáli

Hun­ter Biden, til vinstri, ásamt föður sín­um Joe Biden og …
Hun­ter Biden, til vinstri, ásamt föður sín­um Joe Biden og bróður Beau Biden. AFP

Hunter Biden, sonur fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna Joe Biden, skilaði ekki gögnum til dómara í Arkansas um fjárhagsstöðu sína fyrir meðlagsmál sitt. Fresturinn rann út  1. mars síðastliðinn. Biden hafði beðið um frest til 1. apríl næstkomandi en fékk höfnun. 

Biden stendur nú í stappi við barnsmóður sína, Lunden Roberts, en hún ól honum barn árið 2018. Biden vildi ekki gangast við því að barnið væri hans en DNA-próf sýndi fram á að hann væri faðir barnsins. Dómari í Arkansas hefur því gert honum að greiða meðlag fyrir árin 2018 og 2019 auk áframhaldandi meðlagsgreiðslna. 

Til þess að reikna út meðlagsgreiðslurnar óskaði dómari eftir gögnum um fjármál Biden, og Roberts, fimm ár aftur í tímann. Þar á meðal eru upplýsingar um fyrirtæki og félög í eigu þeirra. 

Biden og lögfræðingar hans hafa verið tregir til að veita dómara svo mikið af upplýsingum um fjármálin. Nú er fresturinn liðinn og Biden hefur ekki skilað neinu. Honum hefur verið gert að koma fyrir dómara 11. mars í Little Rock í Arkansas. 

Biden býr nú í Hollywood Hills í Los Angeles ásamt eiginkonu sinni Melissu Cohen og eiga þau von á sínu fyrsta barni saman. Fyrir á hann þrjú börn úr fyrra hjónabandi með Kathleen Biden, en það fjórða átti hann með Roberts.

mbl.is