Börn í móðurkviði smitast ekki af móður sinni

Börn virðast ekki smitast af kórónuveirunni af móður sinni í …
Börn virðast ekki smitast af kórónuveirunni af móður sinni í móðurkviði. Ljósmynd/Thinkstock

Valtýr Stef­áns­son Thors, barnasmitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, segir að þess séu ekki dæmi að barnshafandi konur hafi veikst alvarlega af kórónuveirunni og börn smitist ekki af móður sinni í móðurkviði. 

„Barnshafandi konur flokkast að mörgu leyti undir áhættuhópa, ef maður tekur inflúensu sem dæmi. Það eru engin dæmi, að mér vitandi, um að barnshafandi konur hafi orðið alvarlega veikar,“ sagði Valtýr á blaðamannafundinum í Skógarhlíð nú fyrir stuttu. 

Hann segir að verið sé að kalla eftir gögnum um áhrif veirunnar á barnshafandi konur. 

„Það sem barnshafandi konur tengjast svo er barnið þegar það fæðist. Mér vitandi eru nokkur dæmi þar sem barnshafandi konur hafa smitast, þá erum við ekki að tala um á Íslandi heldur í Kína. Og fætt barn og barnið er ósmitað, svo barnið smitast ekki í móðurkviði,“ sagði Valtýr og bætti við að vel þyrfti að gæta að sóttvörnum á milli móður og barns í þessum tilvikum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert