Hvers vegna skiptir hreyfing barna og unglinga máli?

Unnar Helgason er einnig osteopata-nemi í Gautaborg og hefur yfir …
Unnar Helgason er einnig osteopata-nemi í Gautaborg og hefur yfir 10 ára reynslu í þjálfun, m.a. í crossfit og keppti sjálfur á heimsleikunum í crossfit árið 2012. Hann hefur meðal annars hjálpað okkar helsta afreksíþróttafólki eins og Gunnari Nelson, gólfglímu og MMA-keppanda, Aroni Einari Gunnarssyni landsliðsfyrirliða og Eygló Ósk Gústafsdóttur sem var íþróttamaður ársins. Unnar þjálfar einnig iðkendur í Crossfit Reykjavík og afrekshópa og keppnislið í Mjölni og er einn af eigendum CrossFit Akureyri.

„Það er mjög mikilvægt að taka skipulega umræðu og hjálpa fólki við að bæta heilsu sína og almenna vellíðan eins fljótt og auðið er. Bættur lífsstíll er ekki bara góður fyrir einstaklinginn sjálfan heldur líka fyrir samfélagið í heild sinni. Hægt er að spara gríðarlega við rekstur heilbrigðiskerfisins og bæta þjónustu ef okkur tekst að fækka lífstílstengdum sjúkdómum og þar með heimsóknum á sjúkrahús og heilsugæslu. Það mun einnig minnka álag á okkar góða fólk í heilbrigðisgeiranum,“ segir Unnar Helgason, styrktar- og þrekþjálfari.

Pistil Unnars er að finna hér fyrir neðan en hann er hluti af mánaðarlegum hollráðsheilsupistlum sem hann og Guðmundur Freyr Jóhannsson læknir skrifa fyrir Nettó:

Mikilvægi hreyfingar fyrir börn og unglinga

Það eru margar ástæður fyrir því að börn og unglingar ættu að stunda hreyfingu og íþróttir með reglubundnum hætti. Hér eru nokkur atriði sem vega þyngst að mínu mati.

Félagsleg færni

Við sem foreldar viljum að börnin okkar taki virkan þátt í því samfélagi sem þau munu búa í og móta þegar þau vaxa úr grasi. Góð félagsleg færni er einn af undirstöðu þáttum þess að fóta sig í samfélagi með öðrum með farsælum hætti. Í íþróttum læra börn að bera virðingu fyrir reglum. Þau læra að vinna saman og finna lausnir á vandamálum.

Einnig hafa verið gerðar rannsóknir sem sýna fram á að börn sem stunda íþróttir sýni töluvert meiri færni í þáttum eins og að hafa samúð með öðrum, í sjálfsstjórn og sjálfsöryggi. Þau vinna betur með öðrum og hafa meiri áhuga/þekkingu á hollu mataræði.

Nýjar taugabrautir

Þegar við framkvæmum nýjar hreyfingar, leysum verkefni, lærum nýtt tungumál eða lærum að spila á hljóðfæri myndum við nýjar taugabrautir í heilanum okkar sem „muna“ nýju hreyfinguna og eða nýju færnina. Eftir því sem barnið prófar fjölbreyttari hreyfingar - þeim mun betri verður heili þeirra í að læra nýjar hreyfingar og tileinka sér nýja færni.

Og það sem meira er, þá halda þessar taugabrautir áfram að þroskast og fylgja börnunum alla ævi þeirra og þar með auðvelda þeim að taka sér fyrir hendur mismunandi krefjandi verkefni.

Vöðvaminni

Vöðvaminni er hægt að útskýra á tvennan hátt. Vöðvaminni hefur verið notað til að lýsa því að eftir að líkaminn hefur lært að framkvæma ákveðna hreyfingu – s.s. að hlaupa, kasta, hoppa o.s.frv. – þá virðist auðveldara fyrir líkamann að „læra“ aftur þessar hreyfingar síðar, jafnvel þó að hreyfinginn hafi ekki verið framkvæmd í nokkurn tíma. Vöðvaminni er einnig notað til þess að lýsa þeirri staðreynd að vöðvarnir „muna“ fyrri styrk og fyrra þrek og mun auðveldara verður seinna á lífsleiðinni að auka styrk og þrek.

Það er því til mikils að vinna fyrir börnin okkar ef þau hafa verið virk í íþróttum og búa yfir fjölbreyttu og góðu vöðvaminni fyrir hver þau verkefni sem verða á vegi þeirra síðar á ævi þeirra.

Beinþéttni

Hreyfing ásamt fjölbreyttri fæði eykur beinþéttni hjá börnum og unglingum. Beinþéttnin sem börn og unglingar öðlast er grunnur að beinheilsu þeirra alla ævi og nánast öll beinþéttni heldur áfram að byggjast upp fram til um 20 ára aldurs.

Börn og unglingar með sterk bein eiga betri möguleika á að forðast beina áverka seinna á lífsleiðinni og forðast beinsjúkdóma. Sem foreldri getum við enn fremur hjálpað til með því að tryggja börnin okkar fái þrjú mikilvægustu „innihaldsefnin“ fyrir heilbrigð bein – þ.e. kalsíum, D-vítamín og hreyfingu.

Í stuttu máli -  flest þeirra andlegu og líkamlegu áhrifa sem íþróttir og hreyfing hafa munu fylgja barninu alla ævi. Ef við viljum að börnin okkar búi að betri andlegri og líkamlegri heilsu til lengri tíma, þá ættum við að hvetja þau til að prófa sem flestar íþróttir, hvort sem það eru boltaíþróttir, bardagaíþróttir, CrossFit, sund, dans – eða hver sú hreyfing sem barnið þitt hefur áhuga á.

Og ég mæli að sjálfsögðu með að þú ræðir við barnið um hvaða hreyfing það er sem vekur áhuga og forvitni barnsins sjálfs - og ekki gleyma að kanna hvort sveitarfélagið sem þú býrð í býður upp á hvatapeninga til að mæta kostnaðinum.

Munið – við erum hönnuð til að hreyfa okkur.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman