„Hvað segir þú gott?“ öðlaðist nýja merkingu

Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með …
Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn.

„Skrýtið hvernig litlir hlutir breytast eftir að maður lendir í áfalli eins og það að heilsa fólki. Hversdagsleg kveðja eins og hvað segir þú gott verður til dæmis öðruvísi fyrir manni. Ég hafði aldrei hugsað neitt sérstaklega út í þessa litlu spurningu að ráði. Þetta er eitthvað sem flestir segja þegar þeir hittast og er eðlilegasti hlutur í heimi. Eftir að Ægir greindist komst ég að því að allt í einu fannst mér skrýtið og jafnvel erfitt að svara þessari spurningu þegar ég hitti fólk,“ segir Hulda Björk Svansdóttir, móðir Ægis Þórs, í sínum nýjasta pistli:

Hvað sagði ég eiginlega gott? Stundum vissi ég það hreinlega ekki, vissi ekki hvernig mér leið. Á maður ekki alltaf að vera hress og segja allt gott? Mér finnst það oft vera viðtekin venja í samskiptum fólks því auðvitað nennir enginn að hlusta á einhvern sem segir ekkert gott eða hvað?

Hvað ef maður segir samt ekkert gott, hvað gerist þá? Þá fara hlutirnir að flækjast því að ekki vill maður demba öllum sínum lífsins vandræðum og leiðindum á þann sem rætt er við sérstaklega ef þetta er bara kunningi sem maður þekkir ekkert endilega mjög vel.

Eins og ég sagði þá vissi ég oft ekkert hvernig mér leið eftir að Ægir greindist þegar ég var spurð að þessu. Ég var stundum dofin og sorgmædd og þá gat verið erfitt að svara. Hvað gera bændur þá?

Átti ég að ljúga, halda andlitinu, brosa og segja þetta týpíska ég segi bara allt gott? Mér fannst það eitthvað svo falskt þannig að ég fór að svara fólki eins heiðarlega og ég gat.

Þegar ég vissi ekkert hvernig mér leið þá svaraði ég einfaldlega: veistu ég veit bara ekki hvað ég segi gott það er bara þannig dagur í dag, stundum er lífið svoleiðis hjá mér núna. Þetta reyndist hið ágætasta svar því ég þurfti ekkert að vera að fara eitthvað dýpra í það og vera með einhvern sorgarpistil eins og æ mér líður alveg hræðilega og þetta er svo erfitt allt saman.

Ef ég hefði haldið þannig áfram er líklegt að viðkomandi hefði sleppt því að spyrja mig næst þegar við myndum hittast. Þegar ég svaraði svona heiðarlega án þess að fara eitthvað lengra með það þá fékk ég oft klapp á bakið og faðmlag jafnvel. Svo að skilnaði sagði fólk oftast: vonandi mun þér líða betur og allir voru sáttir. Ég gat sagt hvernig mér leið í alvörunni og viðkomandi fannst hann ef til vill hafa sýnt mér hlýju og skilning sem var líklega tilgangurinn með spurningunni. Þetta var ekkert vandræðalegt, bara hreint og beint.

Eins og mér fannst oft erfitt að svara þessari spurningu þá fannst mér samt mjög gott að fólk spurði mig hvað ég segði gott. Mér þótti vænt um að fólk sem ég þekkti lítið jafnvel sýndi mér þá samkennd að vilja vita um hagi mína og Ægis. Það var meira að segja mjög mikilvægt fyrir mig að fólk spyrði mig og forðaðist mig ekki. Það gerist nefnilega oft þegar sorgin knýr að dyrum að þá fólk fer að forðast mann, vill ekki ýfa upp sárin hjá manni og hræðist að tala við mann. Ég skil það mjög vel, ég hef sjálf verið í þeim sporum þar sem auðveldara var að forðast einhvern sem ég vissi að átti erfitt heldur en taka af skarið og fara tala við hann því ég var hrædd við viðbrögðin.

Ég verð að segja ykkur það að það er mjög góð tilfinning að finna að fólki var ekki sama og spurði mig, það er mér mikils virði þegar fólk sýnir mér slíkan náungakærleik. Ef ég fer að gráta þá er það bara allt í lagi, það er líklega það sem fólk hræðist að maður fari að gráta.

Við megum ekki hræðast tilfinningarnar, þær eru bara eins og þær eru og ef einhver fer að gráta sem þið talið við þá klikkar aldrei innilegt faðmlag, það þarf oft engin orð. Það gráta allir og það þarf ekki að skammast sín fyrir það. 

Því segi ég við ykkur ef þið þekkið einhvern sem er að ganga í gegnum erfiða hluti, ekki taka sveig í kringum hann til að forðast vandræðalega uppákomu. Það er svo mikilvægt að finna að öðrum er ekki sama um það sem maður er að upplifa og ganga í gegnum. Mikilvægt að finna að það sé verið að hugsa til manns. Endilega haldið því áfram að spyrja hvað segir þú gott?

Nærgætni og hlýju gott er að finna

Gleði í hjartað setur

Náunganum mundu að sinna

Þá líður öllum betur

Hulda Björk ´20

Ást og kærleikur til ykkar.

mbl.is