Var hundelt þegar Suri Cruise var lítil

Mæðgurnar Katie Holmes og Surie Cruise.
Mæðgurnar Katie Holmes og Surie Cruise. AFP

Suri Cruise er líklega eitt frægasta barn í heimi en hún er dóttir fyrrverandi leikarahjónanna Katie Holmes og Tom Cruise. Suri er nú orðin 14 ára en móðir hennar segir í viðtali við InStyle að það hafi ekki alltaf verið auðvelt að ala upp barn undir smásjá fjölmiðla.

Þær mæðgur fengu sérstaklega mikla athygli þegar Suri var lítil og eftir að Holmes sótti um skilnað frá Cruise þegar dóttir þeirra var aðeins sex ára. Holmes segir í viðtalinu að hún hafi nýlega séð gamla aðdáendasíðu sem gerð var um dóttur hennar þegar Suri var aðeins smábarn. Tilfinningin var ónotaleg. 

„Við vorum mikið eltar þegar hún var lítil. Ég vildi að hún fengi að vera úti svo við fórum út að ganga í leit að leikvöllum klukkan sex á morgnana þegar enginn sá til okkar. En það var myndband þar sem ég hélt á henni þegar hún var tveggja ára og hún byrjaði að veifa myndavélinni. Hún er frekar sérstök.“

Tom Cruise og Katie Holmes á Íslandi rétt fyrir skilnaðinn.
Tom Cruise og Katie Holmes á Íslandi rétt fyrir skilnaðinn. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is