Óléttan var fjarlægur draumur

Inga Fanney Rúnarsdóttir og Sigurður Svansson fóru í smásjárfrjóvgun.
Inga Fanney Rúnarsdóttir og Sigurður Svansson fóru í smásjárfrjóvgun. mbl.is/Árni Sæberg

Eftir nokkur ár án getnaðarvarna og tvær misheppnaðar uppsetningar á fósturvísum gekk allt upp hjá Ingu Fanneyju Rúnarsdóttur og sambýlismanni hennar, Sigurði Svanssyni. „Allt er þegar þrennt er,“ segir Inga Fanney, sem er spennt fyrir nýju hlutverki sem bíður hennar og Sigurðar í byrjun júlí.

„Við Siggi kynnumst í mars 2014. Ég ákvað að hætta á getnaðarvörn í október sama ár, ekki besta hugmyndin enda bæði í námi og ég að glíma við slæmt þunglyndi á þessum tíma en mér fannst hugmyndin sniðug þá. Þegar ég hugsa til baka var þetta kannski bara það besta í stöðunni upp á það sem kom í ljós seinna meir. Við vorum ekki beint að „reyna“ en barn var velkomið,“ segir Inga Fanney, sem þurfti að bíða í nokkur ár eftir fyrsta jákvæða óléttuprófinu.

Smásjárfrjóvgun var lausnin

Inga Fanney segir að þau Sigurður hafi verið búin að vera án getnaðarvarna eftir um það bil tvö ár þegar þau áttuðu sig á að líklega væri ekki allt með felldu.

„Við byrjuðum á því að fara til kvensjúkdómalæknis á Akureyri árið 2016 þegar við bjuggum þar. Þar var ég bara skoðuð og kom þá í ljós að allt væri í lagi hjá mér svo við héldum bara áfram að reyna í tvö ár í viðbót en ekkert gekk. Þá ákváðum við að fara í viðtal hjá Livio hér á Íslandi, þar vorum við bæði send í blóðprufu, Siggi skilaði sæðissýni og ég skoðuð. Ég tek það fram að við ákváðum að byrja hér heima, ef þessi meðferð hefði misheppnast hefðum við skoðað möguleikana erlendis.“

Kom í ljós einhver ástæða fyrir erfiðleikunum?

„Já, eftir að við vorum bæði skoðuð kom í ljós að Siggi væri með svokallað latt sæði. Okkur var boðið að fara heim og halda áfram að reyna ef við vildum því það er ekki útilokað að við getum átt barn saman, en það var ekki það sem við vorum að fara að gera í einhver ár í viðbót og læknirinn var alveg sammála því. Hann var viss um að smásjárfrjóvgun væri lausnin fyrir okkur. Smásjárfrjóvgun lýsir sér þannig að þá er frjóvgað undir smásjá með því að koma einni sæðisfrumu fyrir í egginu.“

Hvernig gekk tæknifrjóvgunin?

„Ferlið gekk ágætlega. Við byrjuðum á sprautunum, Siggi fékk góð ráð um hvernig ætti að sprauta mig og þetta varð bara að okkar daglegu rútínu. Ég hélt að það væri erfiðasti parturinn enda mjög sprautuhrædd en svo var ekki. Eftir tvær vikur af sprautum fór ég í eggheimtu. Eggheimtan lýsir sér þannig í stuttri lýsingu að þegar eggbúin eru fullvaxin og eggin orðin vel þroskuð eru eggbúin tæmd með fínni nál og safnað í tilraunaglös og frjóvguð. Þetta var frekar erfitt en ég var búin að ímynda mér þetta verra. Það náðust sex egg, fimm frjóvguðust og ég var bókuð í uppsetningu fimm dögum seinna. Líkaminn tók þessu bara rosalega vel, ég var fljót að jafna mig eftir allt þetta inngrip,“ segir Inga Fanney um smásjárfrjóvgunina.

Þrátt fyrir að allt gengi vel endaði fyrsta uppsetningin ekki með jákvæðu óléttuprófi og ekki önnur heldur.

„Eftir tvær uppsetningar byrjaði að blæða hjá mér akkúrat viku seinna. Allt er þegar þrennt er og ég varð ólétt í þriðju uppsetningu. Ég tek það fram að við Siggi vorum frekar heppin, það er ótrúlega mikið af fólki sem þarf svo miklu meira inngrip eða fleiri uppsetningar,“ segir Inga Fanney og segir þau eiga einn fósturvísi eftir í frysti.

Meðan á þessu ferli stóð pössuðu þau Inga Fanney og Sigurður upp á að gleyma ekki gleðinni.

„Við Siggi ákváðum að taka þettta sem verkefni sem okkur hefði verið fólgið. Þarna var bara ekki hægt annað en að gera þetta saman og reyna bara að gera gott úr hlutunum, sem við gerðum. Fórum í útilegur og gerðum helling saman, sem gerði ótrúlega mikið fyrir okkur og andlegu hliðina hjá okkur báðum.“

Inga Fanney á von á barni í sumar.
Inga Fanney á von á barni í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Vinir í sömu stöðu voru hvatning

Inga Fanney og Sigurður upplifðu sig ekki eins og þau væru ein í heiminum og segja að það hafi hjálpað að tala við aðra í sömu stöðu.

„Vinafólk okkar var í sömu stöðu og við fengum ómetanlegan stuðning frá þeim til að byrja með. Það var akkúrat þegar við héldum á nýfæddu barni þeirra sem við sendum Livio tölvupóst um að við værum tilbúin. Við vorum búin að fresta þessu oft og þau gáfu okkur þennan aukakraft til að taka af skarið.“

Inga Fanney segir að þau Sigurður hafi verið opin með erfiðleika sína við vini og vandamenn. Flestir í kringum þau voru komnir með börn og segir hún að eðlilega hafi fólk hugsað eða spurt af hverju þau væru ekki á sama stað.

„Eftir að við opnuðum umræðuna um okkar erfiðleika fóru fleiri að hafa samband og við fengum ótrúlega góð ráð og strauma. Ég tek það fram að það er ekki fyrir alla að tala opinskátt um þetta og ég skil það ótrúlega vel. Ófrjósemi er hins vegar ekki tabú og svo skiptir það ekki máli hvor aðilinn í sambandinu glímir við hana, enda er þetta samband og í sambandi tekur fólk á hlutunum í sameiningu,“ segir Inga Fanney, sem leggur áherslu á að gefa frá sér eins og annað fólk gerði fyrir þau.

Þrátt fyrir að Inga Fanney og Sigurður hafi fengið góðan stuðning hjá vinum og vandamönnum fengu þau stundum óumbeðin ráð sem komu ekki að góðum notum.

„Við fengum ótrúlega mikið af ráðum, uppáhaldsráðið mitt er einmitt þetta: „Hætta að hugsa um þetta, þá gerist þetta.“ Í rauninni finnst mér þetta vanvirðing við okkar erfiðleika, eins og þetta sé bara svona auðvelt. Það er ekki auðvelt að horfa upp á flestalla í kringum þig eignast börn, mæta í alls kyns viðburði tengda barneignum, tengja ekki við umræðu í flestum hittingum og fleira. Það er svo mikið sem fylgir þessu sem fólk fattar ekki hvað getur verið erfitt fyrir okkur sem glímum við ófrjósemi.“

Inga Fanney.
Inga Fanney. mbl.is/Árni Sæberg

Mögnuð tilfinning að verða ólétt 

Hvernig var að fá loksins jákvætt óléttupróf og sjá síðan hjartsláttinn?

„Ómetanleg tilfinning og einstök upplifun. Að fá þann draum uppfylltan, sem var í rauninni alltaf svo fjarlægur. Ég hélt innst inni að ég myndi aldrei verða ólétt, því ég var farin að trúa því að eitthvað væri að hjá mér. Því þegar maður fær hjálpina, þá heldur maður að þetta sé komið. En svo gengur það ekki, það er einn erfiðasti parturinn sem maður er ekki undirbúinn fyrir. Svo það að vita að ég gat orðið ólétt — það er mögnuð tilfinning. 

Að sjá hjartsláttinn er nokkuð sem ég get ekki lýst með orðum, ég veit, væmni í hámarki, en ég grét bara og Siggi hló. Svo hélt ég bara áfram að gráta og hann að hlæja, þannig var sú sónarferð. Svo voru 12 og 20 vikna sónararnir svo magnaðir, að fá að vita að ég geng með heilbrigt barn, litla prinsessu í þokkabót. Allt varð svo mikið raunverulegra.“

Gátuð þið glaðst um leið og þú varðst ólétt eða fylgdi óléttunni einhver tilfinning um að þetta væri óraunverulegt, bara draumur?

„Ég held að það sé mjög algengt hjá fólki sem glímir við ófrjósemi að fagna ekki of snemma. Við leyfðum okkur ekki að fagna eins og við ættum að gera og fólk í kringum okkur stoppaði okkur stundum af. Eftir að hafa hugsað þetta vandlega þá segi ég bara að maður er að fagna einum sigri í einu og fyrsti sigurinn er jákvætt óléttupróf. Við trúðum þessu ekki í fyrstu og þurftum að bíða í einhverjar vikur eftir snemmsónar. Það var frekar erfið bið og við vorum búin undir það versta, sem betur fer kom allt vel út.“ 

Þrátt fyrir marga litla sigra bendir Inga Fanney að þau séu enn í sömu stöðu ef þau ákveða að reyna aftur. Hún segir þau eiga einn fósturvísi í frysti en ef uppsetning á honum gengur ekki upp þurfa þau að fara í alla meðferðina aftur. Hún segir jákvæðni skipta miklu máli í ferðalagi sem þessu.

„Ég get ekki sagt þetta nógu oft en jákvæðni skiptir svo miklu í þessu ferli, að sætta sig við að þetta er verkefni sem okkur er fólgið. Jú, þetta er ótrúlega erfitt og ósanngjarnt og það er í lagi að vera reiður og gráta en að sætta sig við þetta á endanum og takast á við verkefnið með opnum hug er rosalega mikilvægt. Ræðið við okkur sem opnum okkur um þetta, við erum að þessu til að hjálpa,“ segir Inga Fanney að lokum og ráðleggur fólki að kynna sér meðferðarúrræði bæði á Íslandi og erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert