Svona kemstu í gegnum veiruna með börnunum

Ljósmynd/Unsplash

„Foreldrahlutverkið getur sannarlega verið streituvaldandi á margan hátt, það að hlúa að öllum þeim ólíku þörfum sem börnin okkar hafa. Hugsanir og jafnvel áhyggjur af einhverju sem við erum að fara að gera á eftir, á morgun eða í næstu viku geta valdið streitu og sett okkur á sjálfstýringu. Þegar margir boltar eru á lofti, er auðvelt að rugla saman löngunum og þörfum – fixi og næringu. Við dettum mögulega í að fara að kaupa og gera í stað þess að vera, að vera á sjálfstýringu í stað núvitundar,“ segir Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur í sínum nýjasta pistli: 

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

Núvitundaræfingar fjalla um að upplifa og taka eftir án þess að dæma. Ótal rannsóknir sýna að það að verða vitni að núinu á þennan hátt dregur úr streitu, kvíða og þunglyndi og eykur um leið athygli og vellíðan. Minni dómharka eykur samkennd og rannsóknir sýna að tengsl eru á milli getunnar til að sýna samkennd í eigin garð og getu til að setja heilbrigð mörk. Við getum kennt börnunum okkar að þróa slíkt hugarfar.

Stundum er það einfalda best – eins og Eckhart Tolle segir: Að finna gleðina í að vera. Hér eru tvær frábærar leiðir til þess.

Ganga saman í þögn og hlusta: Ganga með börnunum okkar getur stillt okkur inn í dásamlegt jafnvægi og um leið aukið nánd. Við getum verið að hlusta á brakið í grasinu, þögnina, fuglana eða annað sem er í kringum okkur. Hvaðan koma hljóðin? Eru þau náttúruleg eða frá öðru fólki eða vélum? Hlusta, taka eftir án þess að dæma.

Matartími í núvitund: Það er hægt að nota matartímann til að æfa núvitund, að taka eftir án þess að dæma. Horfa á matinn, lit hans og form, hlusta, finna áferð og lykt. Smakka með því að láta matinn á tunguna án þess að tyggja strax, hvernig er hægt að lýsa þessu bragði?

Það eru fjölmargar aðrar leiðir til að auka núvitund í fjölskyldunni og gaman að prófa sig áfram. Oftast er það einfalda best og þegar okkur sem foreldrum tekst að gefa börnunum okkar augnablikið á þann hátt að við tökum eftir án þess að fella nokkra dóma, þá erum við að kenna dýrmæta lexíu. Það vex sem veitt er athygli.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman