Stuðkví í stað sóttkvíar til að hressa sig við

Þegar ekki er hægt að fara í útilegu er hægt …
Þegar ekki er hægt að fara í útilegu er hægt að skella sér í innilegu. ljósmynd/Colourbox

Börnum á öllum aldri í sóttkví ætti ekki að leiðast ef þau reyna sig við skemmtileg verkefni sem skátarnir bjóða upp á í samkomubanninu. Skátahreyfingin birtir eitt nýtt verkefni á dag en fyrsta verkefnið byrjaði á mánudag þar sem fólk var hvatt til að fara í innilegu í stað útilegu. 

Á vef skáta má finna upplýsingar um verkefnið en þar kemur fram að hægt er að vinna verkefnin heima eða úti í garði á meðan ástandið varir. „Við köllum þetta #STUÐKVÍ, bæði af því að við viljum veita ykkur stuðning okkar, og líka bara af því að það getur alveg verið stuð að takast á við svona aðstæður,“ segir á Skátarnir.is. 

Stuðkvíin virkar þannig að við setjum eitt verkefni á vefinn á hverjum degi sem hver sem er getur gert heima hjá sér. Þetta getur verið föndur, fræðsla, tilraun, þraut eða bara hvað sem er! Þú getur tekið þátt í henni með því að vinna verkefnið og deila því á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #STUÐKVÍ. Þannig getum við fylgst hvert með öðru gera skemmtilega hluti, án þess að þurfa að hittast í raunheimum.“

Fyrsta verkefnið birtist á mánudaginn og var það innilega en ekki útilega. Fólk var hvatt til þess að tjalda inni í herbergi eða inni í stofu. Með verkefnalýsingunni fylgdu leiðbeiningar hvernig mætti föndra innivarðeld. 

Hægt er að fylgjast með verkefninu á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu stuðkví. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert