Krakkarnir færa til húsgögn og fá foreldra með

Brynja Péturs færði danstímana á netið.
Brynja Péturs færði danstímana á netið. Ljósmynd/Aðsend

Danskennarinn Brynja Pétursdóttir hefur rekið dansskólann Dans Brynju Péturs síðan árið 2012. Skólinn er eini „street“-dansskólinn á landinum en meðan á samkomubanni stendur fara kennslustundir fram í gegnum netið á samfélagsmiðlum. Brynja segir þessa óvenjulegu leið hafa gengið vel. 

„Við ákváðum að sýna samhug í verki. Danstímar eru ekki hornsteinn samfélagsins eins og leik- og grunnskólar t.d. svo við ákváðum að fella niður tímana okkar og nemendasýningar því við erum öll á óvissutímum. Við getum nefnilega ekki tryggt það að farið sé eftir fyrirmælum stjórnvalda í danstímum og útfærslan yrði mikill hausverkur fyrir kennara og nemendur. Þá ákváðum við að leysa hnútinn og koma til móts við dansfjölskylduna okkar með æfingum og danstímum á netinu.“

Hvernig gengur að kenna dans í gegnum netið? 

„Fyrstu tímarnir voru í gær og nú þegar hafa yfir 600 manns horft á „live“-danstímana á Instagram sem eru aðgengilegir í sólarhring eftir að við sendum þá út. Við erum peppuð og viðtökurnar hafa verið mjög góðar!“ 

Skólinn býður upp á fjölbreytta tíma og meðan á samkomubanni stendur geta bæði nemendur, foreldrar og aðrir áhugasamir fylgst með tímunum á samfélagsmiðlum og tekið þátt inni í stofu. 

„Allir eru velkomnir að taka þátt ókeypis á netinu. Við erum með dagskrá fyrir alla vikuna á Instagraminu okkar: dansbrynjupeturs, einnig á Facebook: Dans Brynju Péturs. En tímarnir fara út á Instagram live.“

Hvernig gengur að virkja nemendur í að taka þátt án þess að mæta á staðinn?

„Mjög vel. Þau bara færa til húsgögn og geta líka dregið foreldrana í danstíma, við erum með fjölskyldutíma og svo líka tíma sniðna að 10-12 ára á öllum stigum og 13 ára + framhald. Allir geta horft á alla tímana og tekið þátt í því sem þau vilja.“

Felast einhver tækifæri í að opna dansskólann svona?

„Mér líður eins og fólk fái mögulega að kynnast okkur á nýjan hátt. Nú ákváðum við að gera eitthvað með öllum í ástandinu sem við erum í, með því að bæði heiðra það að við þurfum að passa hvert upp á annað og líka að átta okkur á því að núna sitja allir heima með mikinn ónýttan tíma. Þá er hressandi að hafa eitthvað að gera,“ segir Brynja. 

Brynja hvetur fólk til þess að vera með. Hún segir mikilvægt að fólk hreyfi sig og brosi aðeins. „Þegar við hreyfum okkur léttist lundin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert