„Ég þoli ekki neitt svona tilfinningadæmi“

Algengt er að foreldrar nenni ekki að hlusta á tilfinningadæmi.
Algengt er að foreldrar nenni ekki að hlusta á tilfinningadæmi. Ljósmynd/Unsplash

„Það er með ólíkindum hvað ég heyri oft setningar áþekkar þessari. Fólk telur jafnvel að það sé ógagnlegt að tala um tilfinningar sínar eða að gefa þeim of mikinn gaum. Þegar við bregðumst við börnum okkar, ekki síst þegar þau fara inn í unglingsárin, er það hins vegar oft sem við bregðumst við þeim út frá okkur eigin tilfinningum, það er að segja út frá okkar eigin viðhorfum gagnvart þeim tilfinningum sem börnin okkar eru að upplifa,“ segir Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur í nýjum pistli: 

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

Hvernig er viðhorf okkar til tilfinninga eins og kvíða, reiði eða þegar unglingurinn okkar fer að standa með sjálfum sér á þann hátt að hann fer að taka ákvarðanir sem eru okkur jafnvel á móti skapi?

Fyrstu árin upplifum við oftast mikla samúð með börnum okkar. Sársauki þeirra verður sársauki okkar. Smátt og smátt, ef við erum í ágætu sambandi við okkur sjálf, förum við að færast frá því að finna til samúðar með börnum og förum þess í stað að finna til samkenndar.

Ef við náum að verða samferða unglingunum okkar og sýna þeim samkennd í stað samúðar gefum við þeim heilbrigð skilaboð út í lífið og tækifæri til að þroska sína eigin tilfinningagreind. En hver er munurinn á samúð og samkennd?

Þegar við sýnum samkennd erum við að gefa til kynna að við höfum skilning á tilfinningum annarra, án þess að við tökum þær inn í okkar eigin tilfinningakerfi. Við náum þeirri heilbrigðu aðgreiningu að vera til staðar, hlusta og leyfa unglingnum okkar að taka út þá þroskakreppu sem fylgir þessu aldursskeiði.

Á þeim árum sem það tekur einstakling að vaxa frá barni og upp í fullorðinn er oft leit að eigin gildum og sjálfsmynd auk þess sem hormónastarfsemin er að breytast og því fylgja oft miklar geðsveiflur.

Ef foreldri hefur náð að vinna með sínar eigin tilfinningar eru minni líkur á að það haldi áfram að sogast inn í tilfinningalíf unglingsins og bregðast stöðugt við því. Það er mikilvægt að foreldri nái að þroska þann eiginleika að geta sýnt unglingnum sínum samkennd og gefi með því þau mikilvægu skilaboð að við tökum ákvarðanir út frá okkar eigin tilfinningum, en ekki annarra.

„Ég þoli ekki eitthvað svona tilfinningadæmi“ sagði ein móðir þegar dóttir hennar sýndi merki um depurð, neikvæðni og kannski vott af sjálfsvorkunn. Þessi móðir brást við tilfinningum dótturinnar með reiði, hunsun og jafnvel hroka. Hennar viðbrögð komu vegna hennar eigin viðhorfa til þessara tilfinninga. Hún gat því ekki verið sá tilfinningalegi stuðningur sem stúlkan þurfti. Hún þurfti ekki á samúð að halda, hún þurfti ekki á vorkunn að halda. Hún þurfti einfaldlega á því að halda að einhver sýndi henni samkennd, samkennd gagnvart því að vera mannlegur og staddur í miðri þroskakreppu þar sem ný viðhorf og gildi eru að þróast.

Það er fátt eins styrkjandi og vera í góðum tengslum við sínar eigin tilfinningar í hlutverki foreldris. Þá er hægt að vera leiðbeinandi án þess að bregðast stöðugt við.

mbl.is