Kenndi stærðfræði á sólarströnd

Bjarni Þór skellti sér á ströndina í fjarkennslunni.
Bjarni Þór skellti sér á ströndina í fjarkennslunni. Ljósmynd/Facebook

Bjarni Þór Traustason, kennari við Menntaskóla Borgarfjarðar kom nemendum sínum á óvart í síðustu viku þegar hann birtist nemendum sínum á „sólarströnd“. Kennarar í framhaldsskólum um allt land hafa sinnt fjarkennslu síðastliðna viku vegna samkomubanns. 

Fjarkennslan þarf þó ekki að vera leiðinleg eins og raun ber vitni. Bjarni birtist nemendum sínum í blómaskyrtu, með sólgleraugu og derhúfu. Á bakvið hann var falleg sólarströnd. 

„Ég veit ekki af hverju mér datt þetta í hug en ég ákvað bara að þykjast vera kominn á sólarströnd,“ segir Bjarni sem kennir stærðfræði og eðlisfræði við skólann.

Hann segir að nemendur hafi haft mjög gaman af þessu þó viðbrögðin hafi ekki verið mikil inni á fjarkennsluforritinu. Aðspurður hvort hann hyggist skella sér í fleiri búninga í kennslunni segir Bjarni að það sé mjög ólíklegt, það gæti orðið þreytt til lengdar. 

Bjarni segir fjarkennsluna ganga mjög vel og að nemendur taki ótrúlega mikinn þátt í kennslustundum. „Þau eru duglega að spyrja, sumir jafnvel duglegri en í hefðbundnum kennslustundum.“

„Maður býst við því að róðurinn fari að þyngjast þegar líða fer á önnina. Ljóminn af þessu hverfur og þá þarf maður að vera duglegur að brydda up á nýjungum og reyna að vera léttur og skemmtilegur,“ segir Bjarni. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert