12 ára rappari á Akureyri gaf út lagið Sóttkví

Ragnheiður Inga Matthíasdóttir eða Ragga Rix á pottþétt eftir að …
Ragnheiður Inga Matthíasdóttir eða Ragga Rix á pottþétt eftir að ná langt í rappheiminum.

Ragnheiður Inga Matthíasdóttir, 12 ára nemandi við Brekkuskóla á Akureyri, er í sóttkví ásamt fjölskyldu sinni eftir að hafa verið á Spáni í byrjun mars. Ragnheiður eða Ragga Rix er nýbyrjuð að rappa og ætlar að verða heimsfræg. 

„Þið finnið mig á Youtube, ég set lögin mín þar inn. Fylgið mér þar ég er að reyna að fá 1000 áskrifendur,“ segir hún í samtali við mbl.is. 

Rapparinn Ragga Rix lætur það ekki stoppa sig að vera í sóttkví og í gær gaf hún lagið, Sóttkví. Hún lét ekki nægja að búa til lag heldur fylgir ansi hreint hresst myndband með þar sem öll fjölskyldan kemur við sögu. Þegar Ragga Rix er spurð út í söguna á bak við lagið kemur í ljós að ferðin til Spánar fór ekki alveg eins á áætlað var.  

„Við vorum sko á Spáni á leið til Tenerife, en út af ástandinu þá þurftum að fara beint heim í sóttkví. Það var frekar fúlt því ég ætlaði að hitta alla vini mína á Tene og heimsækja gamla skólann minn, en við fjölskyldan áttum heima á Tenerife síðasta vetur. Það var ótrúlegt hvað þetta gerðist allt hratt á Spáni. Það var enginn að spritta sig þegar við komum út en þremur dögum seinna var löggan úti að keyra og reka alla inn,“ segir hún. 

Hér er Ragga Rix ásamt systrum sínum, Bryndísi og Margréti.
Hér er Ragga Rix ásamt systrum sínum, Bryndísi og Margréti.

Hver gerði myndbandið og tók þetta upp? „Aðallega mamma og pabbi þau eru líka algjörir snillar en við systurnar lékum í því.“

Eruð þið fjölskyldan alltaf að gera eitthvað skemmtilegt?

„Jáhá, við erum geggjað hress fjölskylda, nema kannski núna, mér finnst þessi heimaskóli hjá mömmu og pabba mjög leiðinlegur.“

Ragga Rix og móðir hennar, Snæfríður Ingadóttir.
Ragga Rix og móðir hennar, Snæfríður Ingadóttir.

Hvað ertu búin að vera að gera á daginn?

„Að mestu leyti að semja og æfa þetta lag, læra heima og fara út á bílaplan með systrum mínum. Ég er að æfa mig að halda bolta á lofti og systur mínar að læra á hjólabretti og hjólaskauta. Við erum samt bara úti á plani af því að við megum eiginlega ekki fara neitt lengra.“

Verður þú ekkert þreytt á mömmu þinni og pabba og systrum þínum?

„Jú jú það er stundum ekkert smá pirrandi að vera hérna heima lokuð inni með fjölskyldunni og mega varla fara út.“

Ertu með einhver góð ráð fyrir aðra krakka sem eru í sóttkví?

„Já krakkar bara ekki láta ykkur leiðast. Verið bara dugleg að skapa og fara í leiki, spila og bara fyrst og fremst að hafa gaman.“

Myndbandið er tekið heima í stofu hjá fjölskyldunni.
Myndbandið er tekið heima í stofu hjá fjölskyldunni.

Hvað er það fyrsta sem þú ætlar að gera þegar þú losnar úr sóttkvínni?

„Margt, alveg helling, til dæmis borða páskaegg með vinum mínum, fara út á fótboltavöll, og svo miklu fleira. Kannski held ég upp á afmælið mitt þegar þetta er búið en ég varð 12 ára í sóttkví og það var ekkert partí né gjafir, en ég bakaði samt köku og horfðum á bannaða mynd.“

Hér fyrir neðan er lagið Sóttkví ásamt myndbandinu sem foreldrar Röggu Rix, Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson, gerðu.  

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert